Brekkusöngurinn sífellt vinsælli

Ýmsir viðburðir eru orðnir að föstum liðum á Írskum dögum. Má þar nefna keppnina um rauðhærðasta Íslendinginn, götugrillin sem fram fara víðsvegar um bæinn á föstudeginum, tónleikana í miðbænum á föstudagskvöldinu og Lopapeysuballið á laugardagskvöldinu. Þá er brekkusöngurinn á þyrlupallinum fyrir margt löngu orðinn að föstum lið. Brekkusöngurinn hefur frá upphafi verið skipulagður af 1971 árganginum á Akranesi, eða Club 71 eins og hann kallar sig. „Það bara kviknaði einhver hugmynd hjá hópnum og henni var framfylgt. Þetta er bara gaman, við förum sjálf á brekkusönginn og höfum gaman af þessu,“ segir Hannes Viktor Birgisson einn af meðlimum Club 71. Hannes segir brekkusönginn hafa verið haldinn á hverju ári undanfarin ár og að sífellt fleiri leggi leið sína á þyrlupallinn. „Þetta hefur alltaf gengið mjög vel og fer bara stækkandi. Ég held að það hafi verið mætt um þrjú til fjögurhundruð manns fyrst og fjöldinn hefur farið alveg upp í 2.500 manns. Það verðist ekki skipta neinu máli með veðrið, það er bara góð stemning sama hvernig viðrar. Brekkusöngurinn er fjölskylduvænn viðburður, það svona stemningin sem við viljum hafa.“ Helstu styrktaraðilar Brekkusöngsins eru Síminn og Ölgerðin.

Landsþekktir tónlistarmenn leiða brekkusönginn á hverju ári og verður engin undantekning á því í ár þegar Ingó Veðurguð mun stíga á stokk með gítarinn og leiða hópsönginn. Síðar um kvöldið verður Lopapeysuballið árlega haldið, þar sem fram mun koma hljómsveit sem ekki hefur komið fram í langan tíma og á brekkusöngnum verður tilkynnt hver sú hljómsveit er. Brekkusöngurinn hefst klukkan 22 og stendur í um klukkustund.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira