Hallgrímur ásamt þeim Stefáni Rafnssyni og Frey Karlssyni á Írskum dögum í fyrra.

„Við veðjum bara á að veðrið verði gott“

„Það er ástæðulaust að breyta miklu þegar eitthvað hefur gengið vel, eins og hefur til dæmis sannast með landsliðið núna. Þjóðhátíð hefur líka verið eins í fjöldamörg ár,“ segir Hallgrímur Ólafsson, verkefnastjóri Írskra daga, í samtali við Skessuhorn þegar hann er spurður um fyrirkomulag bæjarhátíðarinnar í ár. Hann segist því litlu ætla að breyta og að föst atriði verði áfram á dagskrá á Írskum dögum, líkt og verið hefur undanfarin ár. „Eins og föstudagstónleikar, fjölskylduhátíðin í Garðalundi á sunnudeginum, sandkastalakeppnin, dorgveiðikeppnin og tívolíið á Merkurtúni. Við ætlum að gera aðeins meira úr því en verið hefur og þar geta ungir listamenn komið fram. Bílskúrsböndin hafa þarna tækifæri til að koma sér á framfæri,“ segir Hallgrímur. Hann segir þó einhverjar smávægilegar breytingar væntanlegar, svo sem á staðsetningu viðburða. „Í fyrra var öll kvölddagskráin á hafnarsvæðinu en í ár ætla ég að færa hana aftur upp á Akratorg. Það er mun flottari umgjörð og um að gera að nýta torgið betur. Þarna komast líka fleiri fyrir, það var svolítið troðið við höfnina í fyrra. Það myndast svo flott stemning á útitónleikum og verslanir í bænum verða með opið. Við veðjum bara á að veðrið sé gott,“ segir hann. Engir nýir stórviðburðir eru á dagskrá í ár, að undanskildum Hálandaleikum sem haldnir verða við Garðakaffi á laugardaginn. „Við verðum líka aftur með keppni um best skreytta húsið, líkt og var í fyrra, og núna verða verðlaunin ferð til Dublin. Með þessu viljum við hvetja bæjarbúa til að vera með og skreyta vel í kringum sig.“

 

Fyrst og fremst fjölskylduhátíð

Hallgrímur segir undirbúning hátíðarinnar hafa gengið gríðarlega vel. Auðvitað hafi þetta verið svolítið mikið en að þetta hafist allt tímanlega. „Írskir dagar eru alltaf haldnir, sama hvað. Svo er æðislega skemmtilegt að sjá hvað allir eru alltaf til í að hjálpa og vera með.“ Hátíðin hefst annað kvöld með fjölskylduskemmtuninni Litlu lopapeysunni, sem einnig var á dagskrá í fyrra. „Þar kemur hæfileikafólk af Akranesi fram ásamt stórhljómsveit á stóra sviðinu niðri á torgi. Við ætlum að stækka þann viðburð, það verður stærra og meira en í fyrra. Á föstudagskvöldið verða tónleikar á torginu með Sturlu Atlas, Valdimar Guðmundssyni, Stefaníu Svavarsdóttur og rúsínan í pylsuendanum er Björgvin Halldórsson. Þarna er breitt tónlistarval, eitthvað fyrir alla.“

Hátíðin þótti heppnast afar vel á síðasta ári og fjöldi fólks lagði leið sína í bæinn. Hallgrímur segir að þrátt fyrir mikinn fjölda fólks hafi allt gengið vel fyrir sig. „Bærinn var alveg troðinn, sérstaklega á laugardeginum. Tjaldsvæðið var smekkfullt og ekkert mál kom upp í fyrra. Lögreglan er gríðarlega ánægð með framkvæmdina á þessu, enda á þetta fyrst og fremst að vera fjölskylduhátíð. Ég stíla dagskrána inn á það að það er eitthvað fyrir alla og allir viðburðirnir eru þannig að það er hægt að taka krakkana með.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira