Garðar skoraði þrennu í sigri Skagamanna

Í gærkvöldi lauk níundu umferð í Pepsi deild karla í knattspyrnu með leik ÍA og Stjörnunnar á Akranesvelli. Leikurinn var líflegur og lauk með 4 – 2 sigri Skagamanna þar sem Garðar Gunnlaugsson skoraði þrennu en þetta var fyrsta þrenna Skagamanna í efstu deild í 12 ár. Skagamenn lyftu sér upp fyrir KR í níunda sæti með sigrinum og eru komnir með tíu stig. Stjörnumenn sitja enn í því fimmta með fjórtán stig.

Leikurinn fór af stað með miklum látum. Á fimmtu mínútu skoraði Hilmar Árni Halldórsson fyrir Stjörnuna. Hann skapaði markið algjörlega sjálfur þar sem hann fékk boltann við miðlínu vinstra megin og hljóp með hann að vítateignum þar sem hann kom sér í skotfæri og lagði boltann snyrtilega í nærhornið. Tveimur mínútum síðar kom fyrirgjöf frá Ólafi Val Valdimarssyni í teig gestanna. Fyrirgjöfin var hættulítil þar sem Jóhann Laxdal komst í boltann en þegar hann ætlaði að hlaupa með hann úr vítateignum skoppaði boltinn á blautu grasinu upp í hönd hans og vítaspyrna dæmd. Mjög klaufaleg mistök hjá Jóhanni. Vítaspyrnuna tók Garðar Gunnlaugsson og skoraði hann úr henni líkt og á móti KR í síðustu umferð.  Leikurinn var opinn og skemmtilegur í fyrri hálfleik en fleiri mörk voru ekki skoruð í honum og staðan því 1 – 1 þegar Gunnar Jarl ágætur dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Stjörnumenn komu sprækari til leiks eftir hlé og bættu við öðru marki sínu á 55. mínútu. Eftir klafs í teig Skagamanna eftir aukaspyrnu Heiðars Ægissonar barst boltinn á Brynjar Gauta Guðjónsson sem skaut boltanum í stöngina og inn. Fallegasta mark leiksins.

Eftir að hafa fengið á sig annað markið vöknuðu Skagamenn og sýndu mikla baráttu. Á 63. mínútu fengu Skagamenn hornspyrnu. Ármann náði góðum skalla á markið sem endaði í stönginni en eins og hrægammur hirti Garðar boltann þegar hann barst aftur út og skoraði af stuttu færi.

Skagamenn voru komnir á bragðið og fannst þeim ekki vera ástæða til að hætta úr því sem komið var. Á 66. mínútu fékk Tryggvi Hrafn Haraldsson boltann vinstra megin á vellinum og lék með hann að vítateignum þar sem hann renndi boltanum í hlaupaleið Darren Lough sem kom á ferðinni og setti boltann fram hjá Kerr í marki Stjörnunnar.

Á 72. mínútu fullkomnaði Garðar síðan þrennuna þegar hann fékk góða sendingu inn fyrir frá Ólafi Val; hann náði góðu skoti sem skoppaði fyrir framan Kerr í markinu svo erfitt var fyrir hann að verja boltann. Staðan orðin 4 -2.

Ekki voru skoruð fleiri mörk í leiknum og reyndist 4 – 2 verða lokatölur. Garðar Gunnlaugsson var valinn maður leiksins en hann hefur verið sjóðandi heitur í markaskorun og skoraði fimm mörk í síðustu tveimur leikjum. Næsti leikur ÍA er gegn Breiðabliki á útivelli sunnudaginn 10. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir