Hrvoje Tokic var valinn maður leiksins af stuðningsmönnum. Hér er hann ásamt Bríeti Sunnu Gunnarsdóttur og Eyrúnu Lilju Einarsdóttur sem afhentu honum verðlaunin. Ljósm. Alfons Finnsson.

Enn sigrar Víkingur á heimavelli

Í gærkvöldi mættust lið Víkings Ó. og Þróttar í níundu umferð Pepsi deildar karla. Leikurinn var fjörugur og fimm mörk voru skoruð. Fyrir leikinn var Víkingur í fimmta sæti með 14 stig en Þróttar í næst-neðsta með sjö stig. Víkingur vann gríðarlega sterkan sigur á Þrótti 3 – 2 þrátt fyrir að hafa lent tveimur mörkum undir í upphafi leiksins.

Áhorfendur í Ólafsvík voru sorglega fáir, aðeins 260 talsins, og voru þeir enn að koma sér fyrir á vellinum þegar fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Það var ekki mínúta liðin þegar Thiago Pinto Borges gaf góða stungusendingu á Brynjar Jónasson sem kláraði færið af yfirvegun fram hjá Cristian Liberato í marki Víkings. Um mínútu síðar skoraði Þróttur annað mark þegar Arnar Darri Pétursson markmaður Þróttar tók útspark sem endaði á kollinum á Brynjari Jónassyni sem framlengdi boltanum á Vilhjálm Pálmason sem renndi honum snyrtilega í markið. Staðan orðin 2 – 0 fyrir Þrótt eftir aðeins þriggja mínútna leik og útlitið býsna svart fyrir Víkinga. Þróttur spilaði undan sterkum vindi í fyrri hálfleik og náði að nýta sér það ágætlega. Á 40. mínútu skoraði Hrvoje Tokic virkilega mikilvægt mark fyrir heimamenn. Markið var einfalt; William Dominguez da Silva tók hornspyrnu sem Tokic skallaði inn í markið. Staðan því 1 – 2 þegar flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var ekki jafn fjörugur og sá fyrri og lengi vel var lítið sem ekkert að gerast í leiknum. Þegar komið var á lokamínúturnar fór að færast fjör í leikinn. Á 84. mínútu jafnaði Alfreð Már Hjaltalín metin fyrir Víkinga. Þorsteinn Már Ragnarsson skallaði boltann áfram á Alfreð Má sem potaði boltanum fram hjá Arnari Darra. Staðan 2 – 2 og markið nokkuð sárt fyrir Þróttara sem höfðu varist vel í síðari hálfleik.

Dramatíkinni í lokin var þó ekki lokið. Á lokamínútu venjulegs leiktíma skoraði Aleix Egea. Aftur kom mark upp úr hornspyrnu Dominguez og þar með var stórkostleg endurkoma Víkinga fullkomnuð. Víkingar hafa sigrað alla heimaleiki sína í Pepsi deildinni í ár. Það virðist vera nokkuð erfitt fyrir önnur lið að sækja sigur í Ólafsvík en heimamenn hafa ekki tapað síðustu 18 leikjum sem þeir hafa spilað á sínum velli. Síðast þegar liðið tapaði á heimavelli var það gegn Grindvíkingum 2 – 0 í ágústbyrjun 2014. Það eru því að verða tvö ár. Þetta afrek verður að teljast nokkuð aðdáunarvert.

Víkingur komst með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig; þremur stigum eftir toppliði FH. Næsti leikur Víkinga er 10. júlí gegn KR á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir