Bikarinn góði í Borgarnesi í fyrrasumar. Ljósm. Sigurður Elvar Þórólfsson.

Sveitakeppni GSÍ fer fram um helgina

Íslandsmót golfklúbba hefst á morgun, föstudaginn 24. júní, en keppnin fékk nýtt nafn í vor og heitir mótið nú Sveitakeppni GSÍ. Flestir af bestu kylfingum landsins verða í eldlínunni með sínum klúbbum og að venju má búast við hörkuviðureignum. Keppt er í fjórum deildum í karlaflokki og tveimur deildum í kvennaflokki. Í karlaflokki hefur Golfklúbbur Mosfellsbæjar titil að verja en GM sigraði í fyrsta sinn í sögu klúbbsins í fyrra þegar keppnin fór fram á Hamarsvelli í Borgarnesi. Þar lék GM til úrslita gegn GKG. Í kvennaflokki hefur Golklúbbur Reykjavíkur titil að verja en GR hafði betur gegn GK í úrslitaleik á Hólmsvelli í Leiru.

Af vestlensku golfklúbbunum er það Golfklúbbur Borgarness sem spilar í 1. deild karla. Klúbburinn leikur í A riðli gegn Golfklúbbi Mosfellsbæjar, Golfklúbbi Reykjavíkur og Golfklúbbi Kiðjabergs. Deildin verður spiluð á Korpúlfsstaðavelli. Karlarnir í Golfklúbbnum Leyni á Akranesi eru nú í 2. deild. Þeir munu spila á heimavelli á Akranesi í B riðli. Andstæðingarnir verða Golfklúbbur Selfoss, Golfklúbbur Suðurnesja og Golfklúbbur Grindavíkur. Karlarnir í Golfklúbbnum Mostra í Stykkishólmi leika í 4. deild. Þeir munu keppa á Víkurvelli og verða mótherjarnir félagar í Golfklúbbnum Oddi, Golfklúbbi Öndverðarness og Golfklúbbi Þorlákshafnar. Konurnar í Leyni á Akranesi spila í annarri deild og fer þeirra viðureign fram á Svarfhólsvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir