Sigurður Bragi og Aðalsteinn á tveimur hjólum í Reykjanesrallinu um daginn. Ljósm. gjg.

Rallað um heiðir á Ströndum á laugardaginn

Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur stendur fyrir annarri umferð Íslandsmótsins í rallý um næstu helgi. Að þessu sinni verður haldið til Hólmavíkur og haldin keppni í samstarfi við öfluga heimamenn. Á laugardag hefst keppni á Tröllatunguheiði en um hana verður ekið til skiptis við Steinadalsheiði. Áætlað er að keppni ljúki kl. 17.40 með tilkynningu úrslita og verðlaunaafhendingu við Félagsheimili Hólmavíkur. Ekki hefur verið haldin rallýkeppni í nágrenni Hólmavíkur í sextán ár og er eftirvænting því mikil meðal keppenda að prófa nýjar akstursleiðir.

Þeir Sigurður Bragi Guðmundsson og Aðalsteinn Símonarson verða í hópi keppenda en Keli Vert í Langaholti og Þórarinn Þórsson félagi hans hafa ekki skráð sig til leiks. Þá munu systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn mæta til leiks, Daníel sem fagnar fertugsafmæli sínu í vikunni er einmitt einn þeirra fáu keppenda sem keppt hefur í nágrenni Hólmavíkur. Verður spennandi fyrir rallýáhugafólk að fylgjast með hversu vel þessum köppum öllum gengur að aka um fáfarna fjallvegi Stranda. Nánari upplýsingar um keppnina má sjá á bikr.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir