Um 9000 Íslendingar voru á leiknum í Marseille

Kemst Ísland í 16 – liða úrslit EM á morgun?

Ísland lék sinn annan leik á Evrópumótinu í knattspyrnu síðastliðinn laugardag. Leikurinn fór fram á Stade Vélodrome í Marseille. Mikil stemming var hjá Íslendingum á leiknum og sungu þeir og klöppuðu allan leikinn. Báðir íþróttafréttamenn Skessuhorns voru á svæðinu og urðu m.a. vitni að því þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr víti á 40. mínútu. Við það ærðust íslensku stuðningsmennirnir af fögnuðu. Allt útlit var fyrir að íslenska karlalandsliðið væri að fara vinna sinn fyrsta leik á stórmóti. Þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma sló þögn á íslensku stuðningsmennina þegar Birkir Már Sævarsson setti boltann í eigið net. Í svartnætti augnabliksins héldu margir að með sjálfsmarkinu væri öll von úti fyrir Ísland að komast áfram en svo er alls ekki. Ef Ísland vinnur leikinn í París á morgun, gegn Austurríki, komast þeir upp úr riðlinum sama hvernig aðrir leikir fara. Fjögur stigahæstu liðin í þriðja sæti komast einnig í 16 – liða úrslit. Íslandi gæti því nægt jafntefli en þar þarf Ísland að treysta á úrslit úr öðrum riðlum.

Leikur Íslands gegn Austurríki hefst klukkan 16:00 á morgun.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir