AMÍ á Akranesi um næstu helgi

Nú er á lokametrunum undirbúningur fyrir Aldursflokkameistaramót Íslands, AMÍ, í sundi sem haldið verður helgina 24 – 26. júní á Akranesi. Um er að ræða lágmarkamót sem þýðir að aðeins þeir sem ná ákveðnum lágmörkum keppa á mótinu. Það eru því aðeins bestu sundmennirnir í sínum aldursflokkum sem keppa. „Það eru um 300 keppendur skráðir á mótið frá 16 félögum. Keppendurnir á mótinu eru á breiðu aldursbili. Þeir yngstu eru um tíu ára gamlir og ætli Ágúst Júlíusson afrekssundmaður okkar Skagamanna sé ekki með þeim elstu, en hann er 27 ára. Það er mjög ánægjulegt hvað það komust margir Skagamenn inn á mótið í ár. Fyrir fjórum árum voru 14 keppendur á AMÍ frá ÍA en í ár eigum við 30 keppendur á mótinu. Þetta er því mjög jákvæð þróun fyrir okkur í ÍA,“ segir Trausti Gylfason formaður Sundfélags ÍA í samtali við Skessuhorn.

Trausti segir að búast megi við töluverðum fjölda á Akranes um helgina. „Það fer náttúrlega allt eftir veðri. Það er hefð fyrir því að fólk komi saman og tjaldi og búi til fjölskyldustemningu. Við búumst við að 600 manns fylgi keppendum á mótið en síðan veltur það á veðri hvort það verða færri eða fleiri en það. Við vonum bara að það verði frábært veður og við fáum þúsund manns í bæinn.“

Mótið er eitt stærsta sundmót ársins og því að mörgu að hyggja. „Mótið er haldið í þriðja skiptið á Akranesi en síðast var það haldið hér árið 2003 og þar á undan árið 1988. Þetta er mjög göfugt verkefni og mikil tilhlökkun hjá öllum. Við höfum unnið náið og vel með Sundsambandi Íslands, bæjaryfirvöldum og starfsfólki íþróttamiðstöðvanna á Akranesi í aðdraganda mótsins og samstarfið gengið vel. Við vonum að bæjarbúar taki vel á móti gestunum. Hægt er að skrá sig í sjálfboðastarf á mótinu og það myndi gleðja okkur ef fólk gæti gert það,“ segir Trausti en fólk getur skráð sig á vaktir með því að fara inn á slóðina ia.is/sund/ami-2016.

Líkar þetta

Fleiri fréttir