Ármann Smári var besti leikmaður vallarins. Ljósm. Guðmundur Bjarki.

Skagamenn féllu úr leik í bikarnum

Skagamenn mættu liði Breiðabliks í sextán liða úrslitum bikarkeppni KSÍ í gær. Breiðablik sigraði í leiknum með tveimur mörkum gegn einu. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma og því réðust úrslitin í framlengingu. Árið 2013 komust Skagamenn síðast í sextán liða úrslit bikarkeppninnarog var því sagan að endurtaka sig. Léku þeir einmitt þá við Breiðablik og tapaðist leikurinn í framlengingu. Blikar byrjuðu leikinn af krafti í gær og náðu forystu strax á fimmtu mínútu. Jonathan Ricardo Glenn slapp þá inn fyrir vörn Skagamanna eftir góða sendingu Andra Rafns Yeoman og Glenn kláraði færið af öryggi. Skagamenn voru heppnir að fá ekki annað mark á sig í kjölfarið þegar Atli Sigurjónsson átti hörkuskot í slána. Skagamenn komust loksins inn í leikinn um miðbik fyrri hálfleiks og var jafnræði með liðunum eftir það.

Á 52. mínútu áttu Blikar mjög vel uppbyggða sókn sem endaði með því að Andri Rafn komst í opið marktækifæri en Ármann Smári var búinn að lesa aðstæður vel og kom sér fyrir á marklínu og tókst að verða fyrir skoti Andra. Ármann Smári var besti maður vallarins í leiknum. Hann skoraði mark Skagamanna á 60. mínútu. Iain James Williamson tók aukaspyrnu frá miðju og sendi góðan bolta fyrir markið. Ármann komst fyrstur í boltann og stangaði boltann inn í markið. Leikurinn var nokkuð fjörugur eftir markið en ekkert mark skorað svo gripið var til framlengingar.

Hetja Breiðabliks í framlengingunni reyndist vera hinn 16 ára gamli Ágúst Eðvald Hlynsson sem er einn efnilegasti íslenski knattspyrnumaður Íslands í dag. Boltinn barst á hann á 110. mínútu eftir aukaspyrnu og kláraði hann færið af mikilli yfirvegun.

Leiknum lauk því með 1 – 2 sigri Breiðabliks og eru þeir komnir áfram í átta liða úrslit en Skagamenn eru úr leik.

Langt er í næsta leik hjá Skagamönnum vegna EM í fótbolta. Næsti leikur fer fram fimmtudaginn 23. júní þegar Skagamenn mæta erkifjendum sínum í KR í Frostaskjóli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir