Björn Pálsson var hetja Víkinga. Ljósm. Alfons Finnsson.

Víkingur í öðru sæti eftir sigur í gær

Víkingur Ólafsvík fékk Fylki í heimsókn í Pepsi deild karla síðdegis í gær. Víkingur hefur farið afar vel af stað á meðan Fylkismenn hafa verið í miklu basli og ekki enn unnið leik í Íslandsmótinu í sumar. Fylkir byrjaði leikinn af miklum krafti og komust strax í fín færi. Vindurinn spilaði sinn þátt í leiknum og léku Fylkir með vindi í fyrri hálfleik. Á tíundu mínútu leiksins þurfti Christian Liberato, markmaður Víkinga, að hafa sig allan við til þess að verja skot Garðars Jóhannssonar. Fylkir sótti stíft að marki Víkinga fyrsta hálftíma leiksins og sköpuðu sér mörg fín færi. Það fór að róast á leiknum þegar leið á fyrri hálfleikinn og var síðari hluti fyrri hálfleiks mjög bragðdaufur.

Á 48. mínútu fengu Víkingar aukaspyrnu á stórhættulegum stað en skot Pape úr aukaspyrnunni ekki gott og yfir markið. Á 70. mínútu skallað Tonci Radovnikovic, leikmaður Fylkis, boltann í slána eftir hornspyrnu; Christian í markinu var fljótur að átta sig og kom boltanum í burtu. Allt virtist stefna í steindautt 0 – 0 jafntefli þegar Ejub gerði breytingu á liði sínu á 89. mínútu; margir litu svo á að Ejub væri sáttur með jafnteflið þegar hann tók sóknarmanninn Þorstein Má Ragnarsson út af og setti miðjumanninn Björn Pálsson inn á. Þessi skipting átti þó eftir að svínvirka því aðeins þremur mínútum síðar, í uppbótartíma leiksins, barst boltinn til Björns sem skoraði með glæsilegu skoti. Leiknum lauk því 1 – 0 fyrir Víking.

Víkingar halda velgengni sinni áfram í Íslandsmótinu og skutu sér upp í annað sætið með sigrinum með jafn mörg stig og FH sem er á toppi deildarinnar með hagstæðari markatölu. Nú tekur við nokkuð langt frí hjá Víkingum og spila þeir ekki næst fyrr en 24. júní gegn liði Víkings Reykjavík á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir