Skagamenn voru allt annað en sáttir með Sigurð Óla dómara leiksins. Ljósm. Guðmundur Bjarki.

Skagamenn komnir í erfiða stöðu eftir tapleik

Það var mikið undir þegar ÍA og Þróttur léku sjöunda leik sinn í Pepsi deild karla á Akranesvelli í gærkvöldi. Fyrir leikinn voru bæði lið með fjögur stig; aðeins tveimur stigum meira en botnlið Fylkis. Fyrst dró til tíðinda í leiknum á sjöttu mínútu leiksins þegar dómarateymi leiksins þurfti að gera skiptingu. Valdimar Pálsson, dómari leiksins, fór út af og inn á kom í fyrsta sinn í efstu deild, Sigurður Óli Þorleifsson. Fyrsta góða færi leiksins fengu Skagamenn þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson slapp inn fyrir vörn Þróttar en Arnar Darri Pétursson markmaður Þróttar sá við honum. Tryggvi var að spila sinn fyrsta leik fyrir ÍA í sumar en hann hefur verið að láni hjá Kára það sem af er sumri. Þróttur fékk sannkallað dauðafæri á 21. mínútu. Misskilningur virðist hafa átt sér stað milli varnarmanns og markmanns ÍA sem virtust báðir geta náð boltanum en þeir létu hann fara. Dion Jeremy Acoff fékk boltann á góðum stað en skot hans fór fram hjá markinu. Bæði lið fengu fín færi í fyrri hálfleik en hvorugt náði að koma boltanum í netið og staðan því 0 -0 þegar flautað var til leikhlés.

Tryggvi Hrafn kom sprækur inn í lið Skagamanna og fékk hann mjög gott færi á 60. mínútu. Aftur slapp hann einn í gegn og aftur varði Arnar Darri vel í markinu. Á 66. mínútu komu skoruðu Skagamenn eftir að Garðar Gunnlaugsson setti boltann snyrtilega í markið eftir sendingu Tryggva Hrafns, en markið dæmt af vegna rangstöðu. Umdeildur dómur. Besta færi leiksins kom á 77. mínútu leiksins. Þróttarar fengu horn sem Dean Morgan tók; eftir smá klafs barst boltinn til Vilhjálms Pálmasonar sem setti boltann í slána af stuttu færi. Skagamenn heppnir að lenda ekki undir.

Á lokamínútu venjulegs leiktíma kom sigurmark leiksins þegar Brynjar Jónasson gaf boltann á Aron Þórð Albertsson sem kom boltanum inn af stuttu færi. Skagamenn fóru ekki leynt með reiði sína þar sem þeir vildu meina að boltinn hafi farið í hönd Brynjars. Skagamenn höfðu á réttu að standa í þessu þar sem sjónvarpsupptökur hafa sýnt að boltinn fór mjög greinilega í hönd Brynjars. Sigurður Óli dæmdi markið þó gilt og sigur Þróttar því staðreynd, 0 – 1.

Þetta var í fyrsta sinn sem Þróttur sigrar Skagamenn á Akranesvelli í efstu deild og um leið náðu þeir þriggja stiga forystu á ÍA í deildinni. Skagamenn eru enn með fjögur stig og komnir í næstneðsta sæti deildarinnar. Næsti leikur Skagamanna er fimmtudaginn næstkomandi í 16-liða úrslitum bikarins á móti Breiðabliki á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir