Björn Bergmann til IFK Norrköping?

Fotbolti.net greindi frá því fyrir helgi að samkvæmt áreiðanlegum heimildum væri knattspyrnumaðurinn Björn Bergmann Sigurðsson á leið til sænsku meistaranna í IFK Norrköping. Þessi 25 ára framherji kom til baka úr erfiðum meiðslum á nýloknu tímabili. Hann náði að spila 14 leiki með Wolverhampton Wanderers, eða Úlfunum, í ensku fyrstu deildinni á þessu ári en tókst ekki að skora mark. Samningur hans við Úlfana rann út nýlega og þarf Björn því að róa á ný mið.

Sagt er að einnig sé mikill áhugi hjá Lilleström að fá Björn í sínar raðir. Þar á bæ þekkja menn vel til Björns en hann spilaði með Lilleström á árunum 2009 til 2012 við góðan orðstír. Spennandi verður að fylgjast með hvert Björn fer en flestir félagsskiptagluggar í Evrópu opna snemma í júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir