Þeir standa eftir sem sigurvegarar. Frá vinstri: Ómar, Guðmundur og Kristján.

Sigruðu í skotkeppni vetrarins

Skotfélag Vesturlands hefur staðið fyrir svokallaðri „Silhouette“ mótaröð eftir áramót í inniaðstöðu félagsins í Brákarey í Borgarnesi. Hún fer þannig fram að skotið er frá öxl standandi á 25 metra færi með 22. cal rifflum. Skotið er á mörk sem eru með mismunandi lagi og fæst stig fyrir að hitta einhversstaðar í markið. Skotið er á tíma (30 sek í hleðslu og 2:30 mín í skot á 5 skotmörk). Alls var skotið á 25 skotmörk í hverri umferð. Í heildina voru sex umferðir og taldar fjórar bestu.

Lokaumferðin fór fram 26. maí síðastliðinn. Keppnin var eins og á fyrri mótum, hörð og skemmtileg. Sigurvegari kvöldsins varð Ómar Jónsson með 15 „hitt“. Í öðru sæti eftir bráðabana við Ómar var Þorbergur Guðmundsson með 15 hitt og í þriðja sæti varð Guðmundur Símonarson en einnig þurfti bráðabana milli hans og Stefáns Ólafssonar en þeir hittu báðir 12 sinnum en Guðmundur hafði betur í bráðabana.

Þar sem þetta var síðasta mót vetrarins þá liggja nú fyrir úrslit í heildarkeppninni. Sigurvegari í samanlögðu er Guðmundur Símonarson með 59 stig. Í öðru sæti með 54 stig varð Kristján Vagn Pálsson og þriðji varð Ómar Jónsson einnig með 54 stig. Kristján hlaut annað sætið eftir bráðabana þeirra á milli. Veitt voru verðlaun í lok móts. Guðmundur Símonarson fékk gjafabréf frá Hótel Bifröst, Kristján fékk gjafabréf frá Grillhúsinu í Borgarnesi og Ómar fékk gjafabréf frá Landnámssetri Íslands í Borgarnesi. „Kunnum við þessu frábæru fyrirtækjum okkar bestu þakkir fyrir stuðninginn og þökkum öllum keppendum fyrir drengilega og góða keppni í vetur,“ segir Erlendur B. Magnússon hjá Skotvest.

Líkar þetta

Fleiri fréttir