Jóhann Pétur Hilmarsson og Sveinbjörn Rey Hjaltason sigruðu +90 flokkinn.

Vélhjólaíþróttafélag Akraness sigraði í tveimur flokkum

Hópur keppenda frá Vélhjólaíþróttafélagi Akraness tók þátt í árlegu torfæruhjólakeppninni Klaustur Off-road Challenge sem haldin var í fjórtánda sinn laugardaginn 28. maí. Keppnin var haldin í landi Ásgarðs sem er rétt fyrir utan Kirkjubæjarklaustur. 248 manns tóku þátt í mótinu í ár og þar af tíu manns frá VÍFA í fjórum liðum. Keppnin er sex klukkustunda þolakstur þar sem keppendur aka hring sem er um 16 km langur og hlykkjast upp og niður um grasbala, moldarstíga, malarkafla og sandeyrar. Keppst er við að ná sem flestum hringjum frá því keppni hefst kl. 12 og þar til innakstri í brautina er lokað kl. 18.

Keppt er í nokkrum flokkum. Má þar nefna járnkarlinn og járnkonuna, en þar hjóla keppendur svo lengi sem þeir hafa þrek til þessar sex klukkustundir. Þá er keppt í liðakeppnum þar sem liðsfélagar skiptast á að aka hringi. Þannig er keppt í tvímenningi, þrímenningi, parakeppni og afkvæmakeppni. Í +90 ára flokki þurfa báðir keppendur að vera 45 ára eða eldri, í +100 ára flokki þurfa báðir í liðinu að vera 50 ára eða eldri og í +150 ára flokki þurfa allir þrír liðsmennirnir að vera 50 ára eða eldri.

 

Góður árangur Skagamanna

VÍFA átti glæsilega fulltrúa í fyrsta sæti í +90 flokknum, þá Sveinbjörn Rey Hjaltason og Jóhann Pétur Hilmarsson. Þeir voru jafnframt í áttunda sæti yfir heildarkeppnina sem verður að teljast mjög góður árangur, óku samtals 15 hringi á 6 tímum og 7 mínútum.  Þeir Ásgeir Ásgeirsson, Ólafur Páll Sölvason og Sigurbjörn Hafsteinnson urðu í öðru sæti í +150 flokknum, fóru samtals 12 hringi á 6 tímum og 16 mínútum.  Björn Axelsson og Axel Guðni Sigurðsson fóru 14 hringi í tvímenningsflokki á 6 tímum og 22 mínútum og þau Björn Hilmarsson, Guðrún Hjaltalín og Petronella Kristjánsdóttur skiptu á milli sín 10 hringjum í þrímenningsflokki á 6 tímum og 3 mínútum.

Í það heila tókst keppnin mjög vel, frábærar aðstæður hvað varðar veður og brautarskilyrði.

Að morgni laugardagsins var svo að auki haldin krakkakeppni í þremur aldursflokkum, 8 til 9 ára, 10 til 11 ára og 12 til 13 ára.  Það voru þau Tristan Sölvi Jóhannsson, Ragna Sól Karlsdóttir, Kristján Andri Valmundarson og Magnús Máni Sæmundsson sem tóku þátt að þessu sinni og stóðu þau sig með miklum sóma.

„VÍFA hvetur Skagamenn til að kynna sér starf félagsins og að mæta á þær keppnir sem haldnar eru á keppnis- og æfingasvæði VÍFA sem staðsett er á gömlu ruslahaugunum við Akrafjallsveg. Næsta motorkrosskeppni í Íslandsmóti sem haldin verður á vegum félagsins verður 16. júli. Einnig verður bikarmót haldið í júní en endaleg dagsetning liggur ekki fyrir,“ segir í tilkynningu frá VÍFA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira