Mummi, Aron og Alda Dís héldu tónleika í Félagsheimilinu Klifi síðastliðinn sunnudag. Ljósm. þa.

Hringferðin kom við í Snæfellsbæ

Undanfarið hafa þrír ungir tónlistarmenn verið á ferð um landið og haldið tónleika á mörgum stöðum. Kalla þau tónleikaferðina sína Hringferðina. Þarna eru á ferðinni þau Mummi, Alda Dís og Aron og héldu þau tónleika í Snæfellsbæ síðastliðinn sunnudag í Félagsheimilinu Klifi. Þau Alda Dís og Mummi eru síður en svo ókunnug í Snæfellsbæ en Mummi, eða Guðmundur Reynir Gunnarsson, spilaði með meistaraflokki Víkings Ó. síðasta sumar. Alda Dís Arnardóttir er fædd og uppalin á Hellissandi. Hún söng sig inn í hjörtu landsmanna í Ísland Got Talent og bar sigur úr býtum í keppninni í fyrra. Með þeim er Aron Steinþórsson en hann er gítarleikari og söngvari í hljómsveitinni Puffin Island. Þarna eru á ferð afar fjölhæfir og góðir listamenn sem eiga framtíðina fyrir sér. Áttu þau það jafnvel til að spila á fleiri en eitt hljóðfæri í einu og gerðu það sérlega vel. Voru þau allt í senn hljóðmenn, tónlistarmenn og kynnar, á milli laga spjölluðu þau við tónleikagesti sem voru á ýmsum aldri. Voru tónleikarnir vel heppnaðir og þeir sem mættu sammála um að flutningurinn hafi verið skemmtilegur og notalegur í senn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira