Eiga sér fyrirmyndir í fjölskyldunni

Körfuboltabræðurnir Þorgeir og Sigurður Aron Þorsteinssynir eru búsettir í Borgarnesi. Bræðurnir eru efnilegir spilarar og hafa báðir verið viðloðandi yngri landslið Íslands undanfarin ár. Þorgeir er fæddur árið 1999 og er því 17 ára gamall en Sigurður er tveimur árum yngri. Báðir leika þeir stöðu miðherja og hafa hæðina með sér. Þorgeir er 205 sentímetrar en Sigurður er 197 sentímetrar. Þegar blaðamaður ræddi við bræðurna á dögunum kom á daginn að miðherjastaðan hefur verið áberandi í fjölskyldunni. Fyrst ber að nefna afa drengjanna, Sigurð Má Helgason. „Afi var í landsliðinu og alltaf mikið í kringum körfubolta. Hann var meðal annars einn af stofnendum körfuknattleiksdeildar Vals,“ segir Þorgeir. Næst nefna bræðurnir móðurbróðurinn Flosa Sigurðsson, sem fór til Seattle í Bandaríkjunum og lék á háskólastyrk á áttunda ártugnum. „Síðan er það auðvitað bróðir pabba, Gunnar Þór Þorsteinsson, eða Gunni bóndi, eins og hann var kallaður. Hann spilaði lengi með Skallagrími og er einn af þekktari leikmönnum liðsins,“ segja bræðurnir.

Allir voru ættingjarnir miðherjar og ef til vill átti það því fyrir bræðrunum að liggja að leggja körfuboltann fyrir sig. „Ætli þetta sé ekki bara í blóðinu. Við höfum alltaf verið í kringum körfubolta,“ segja þeir. „Við vorum aldrei mikið fyrir fótbolta en prófuðum líka badminton og spiluðum það í mörg ár með körfunni. En Borgarnes er mikill körfuboltabær og körfuboltinn var alltaf skemmtilegastur,“ segir Þorgeir.

Nánar er rætt við körfuboltabræðurna í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.