Hrovje Tokic skoraði mark Víkings. Ljósm. Alfons.

Víkingar sóttu stig í Kaplakrika

Víkingar léku gegn Íslandsmeisturum FH í sjöttu umferð Pepsi deildar karla í gær. Víkingar áttu í smá erfiðleikum varnarlega í fyrri hálfleik sem varð til þess að FH fékk nokkur mjög góð færi.

Á tíundu mínútu fékk FH gott færi þegar boltinn datt fyrir fætur Davíðs Þórs Viðarssonar en skoti hans var naumlega bjargað af Víkingum. FH hélt áfram að gera atlögu að marki Víkings sem endaði með marki Steven Lennon á 28. mínútu eftir undirbúning Bjarna Þórs Viðarssonar. Eftir markið varð ekkert lát á sóknarleik heimamanna í Hafnarfirði. Á 31. mínútu átti Kassim Doumbia góðan skalla að marki Víkinga en þeir náðu að bjarga á marklínu.

Í síðari hálfleik fóru Víkingar að líkjast sjálfum sér og fengu hættuleg færi. Á 59. mínútu kom góð sending frá Pontus Nordenberg á Þórhall Kára Knútsson sem var í prýðisfæri en Gunnar Nielsen varði frá honum. FH hélt þó áfram að fá fín færi en nýttu þau ekki. Á 86. mínútu skoruðu Víkingar þegar Pape Mamadou Faye sendi boltann á Hrovje Tokic, markahæsta leikmann Pepsi deildarinnar, sem setti boltann af yfirvegun í mark FH-inga.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og 1-1 jafntefli því staðreynd.

Víkingar hafa farið mjög vel af stað á Íslandsmótinu og eru eftir sex umferðir enn í toppbaráttu deildarinnar og segja má að þeir séu það lið sem hefur komið hvað mest að óvart. Með jafnteflinu komust þeir í ellefu stig og eru jafnir FH að stigum í fjórða sæti.

Næsti leikur Víkinga fer fram í Ólafsvík þann 5. júní gegn Fylkismönnum. Með sigri þar og hagstæðum úrslitum gæti Víkingur siglt upp í toppsæti deildarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira