Sundfélag Akraness átti stigahæsta lið mótsins. Ljósm. Sundfélag Akraness Facebook SA.

Akranesleikarnir fóru fram um helgina

Akranesleikarnir í sundi fóru fram um síðastliðna helgi í Jaðarsbakkalaug á Akranesi. 265 sundmenn frá tíu félögum tóku þátt á mótinu að þessu sinni en það er aðeins færra en síðustu ár. Mótið er stigakeppni milli liða þar sem fimm fyrstu keppendurnir í hverri grein fá stig og í boðsundi tvöfaldast svo stigafjöldinn. Sundfélag Akraness stóð uppi sem stigahæsta lið mótsins. Það var Bryndís Bolladóttir í Sundfélaginu Ægi sem synti stigahæsta sund mótsins þegar hún synti 400 metra skriðsund. Sundfélagið Ægir fékk síðan viðurkenningu fyrir prúðmennsku.

Trausti Gylfason formaður SA segir að mótið hafi gengið vel en þó hafi veðrið haft sín áhrif. “Það var náttúrlega foráttu veður á föstudeginum og það hafði áhrif en við enduðum sem betur fer í góðu veðri á sunnudaginn. Það skiptir að sjálfsögðu máli að fólk eigi góðar minningar af mótinu og því vill maður að veðrið sé gott.“

Akranesleikarnir í ár fóru að nokkru leyti í að prufukeyra tæknibúnað sem nýtast mun þegar Aldursflokkameistaramót Íslands 2016 verður haldið helgina 24. – 26. júní á Akranesi. „Við höfum keypt nokkuð af nýjum tæknibúnaði í samstarfi við Akraneskaupstað og prufukeyrðum við hann á Akranesleikunum um helgina,“ segir Trausti en búnaðurinn sem um ræðir er Splash hugbúnaður sem mælir tíma sundmanna. „Það var gott fyrir okkur að fá að reyna á búnaðinn fyrir AMÍ og það gekk allt eins og í sögu,“ segir Trausti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira