Jón Vilhelm skoraði glæsilegt mark í leiknum gegn Víkingi Reykjavík. Ljósm. Guðmundur Bjarki,

Dramatík í lokin

Í gær fór fram leikur ÍA og Víkings Reykjavíkur í sjöttu umferð Pepsi deildar karla. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið til að spyrna sér frá botni deildarinnar. Gunnlaugur Jónsson breytti leikkerfi Skagamanna frá síðasta deildarleik úr 4-4-2 í 3-5-2. Leikurinn fór býsna fjörlega af stað og voru það Skagamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins strax á annarri mínútu þegar Jón Vilhelm Ákason skoraði með viðstöðulausu skoti utan teigs; eitt af mörkum tímabilsins. Skagamenn voru þó ekki lengi með forystu því tveimur mínútum síðar jafnaði Vladimir Tufegdzic metin fyrir Víkinga. Fjörið var ekki búið því áhorfendur þurftu aðeins að bíða í mínútu til viðbótar til þess að sjá Garðar Bergmann Gunnlaugsson setja boltann í markið af stuttu færi eftir sendingu Ásgeirs Marteinssonar. Við það mark róaðist leikurinn. Víkingar reyndu að gera atlögu að marki Skagamanna en Skagamenn voru þéttir til baka. Tíu mínútum fyrir leikhlé vildu Skagamenn fá vítaspyrnu þegar Albert Hafsteinsson féll niður inn í teig Víkings.

Í síðari hálfleik voru Víkingar sterkari aðilinn. Þeir náðu að jafna með marki hins efnilega Óttars Magnúsar Karlssonar á 55. mínútu. Það var svo á lokamínútu leiksins sem boltinn barst á Ívar Örn Jónsson sem setti boltann snyrtilega í mark Skagamanna. Lokatölur 3-2 fyrir Víking Reykjavík. Skagamenn sitja enn í tíunda sæti með fjögur stig eftir leikinn. Næsti leikur Skagamanna er gegn Þrótti á heimavelli sunnudaginn 5. júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir