Borgfirðingar í öðru sæti á Ringómóti

Ringómót var haldið 22. maí síðastliðinn í íþróttahúsinu á Hvolsvelli. Sex lið mættu til keppni en spiluð var ein umferð, alls 15 leikir þar sem allir kepptu við alla. Keppendur voru 26 en þau lið sem tóku þátt í mótinu voru frá Glóð í Kópavogi (tvö lið), einnig tvö lið frá UMSB í Borgarfirði og svo eitt lið frá HSK og annað frá Íþróttafélaginu Dímon á Hvolsvelli. Sigurveigari á mótinu var lið HSK, í öðru sæti varð A lið UMSB og í þriðja sæti Glóð 1.

Að loknu móti og verðlaunaafhendingu var svo öllum þátttakendum og starfsmönnum boðið upp á kjötsúpu að hætti Sláturfélags Suðurlands í félagsheimilinu Hvoli.

Ringó er nýleg íþróttagrein hér á landi sem nýtur síaukinna vinsælda úti í hinum stóra heimi. Íþróttin á rætur sínar að rekja til hins pólska Włodzimierz Strzyżewski sem var fyrirliði skylmingaliðs sem keppti fyrir hönd Póllands á Heimsmeistarakeppni Námsmanna árið 1959. Til að halda sér og félögum sínum í formi fyrir leikana útbjó hann leik sem reynir á snerpu og viðbrögð leikmanna ásamt því að auka liðleika og styrk. Leikurinn er leikinn á venjulegum blakvelli og líkist blaki að nokkru leiti. Í stað bolta eru notaðir mjúkir gúmmíhringir sem kastað er yfir netið til að skora stig.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir