Þórður Þorsteinn Þórðarson og Arnór Sigurðsson fagna marki þess fyrrnefnda. Reyndist það eina mark leiksins. Ljósm. Guðmundur Bjarki

Skagamenn áfram í bikarnum

ÍA tók á móti 2. deildar liði KV í 32 liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu fyrr í kvöld. Leiknum lauk með 1-0 sigri ÍA.

Eina mark leiksins kom strax á 5. mínútu og það gerði Þórður Þorsteinn Þórðarson. Fyrirgjöf frá vinstri rataði í gegnum vítateginn og á fjærstöngina þar sem Þórður var mættur og kláraði færið.

Skagamenn voru töluvert sterkari allan leikinn enda tveimur deildum ofar í Íslandsmótinu og fengu fjölmörg tækifæri til að bæta við mörkum. Martin Hummervoll fékk dauðafæri á 25. mínútu eftir stungusendingu Jóns Vilhelms Ákasonar en brenndi af.

Áfram voru leikmenn ÍA betri, sköpuðu sæmileg færi sem ekki tókst að nýta. Næsta dauðafæri fékk Steinar Þorsteinsson á 58. mínútu eftir mistök í vörn KV. Skot hans hins vegar beint á markvörðinn.

Á 80. mínútu fékk ÍA víti eftir að brotið var á Albert Hafsteinssyni eftir góðan sprett í teignum. Hann fór sjálfur á punktinn en vítið var varið. Því næst var komið að Garðari Gunnlaugssyni eftir laglega sendingu Jóns Vilhelms. Garðar hugðist vippa boltanum yfir markvörðinn en hafði ekki erindi sem erfiði.

Gestirnir úr Vesturbænum fengu síðan hornspyrnu á lokamínútu leiksins. Upp úr henni fengu þeir prýðisfæri en Skagamenn bægðu hættunni frá og geystust í skyndisókn. Garðar komst þar einn í gegn en markvörður KV bjargaði með góðu úthlaupi. Skömmu síðar var leikurinn flautaður af og lokatölur sem fyrr segir 1-0, ÍA í vil.

Líkar þetta

Fleiri fréttir