Þrátt fyrir ágætar tilraunir tókst leikmönnum ÍA ekki að skora gegn Selfyssingum. Hér er það Rachel Owens sem lætur vaða á markið. Ljósm. Guðmundur Bjarki.

Skagakonur töpuðu fyrir Selfyssingum

Þriðja umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu var leikin í gær. ÍA tók á móti Selfossi og mátti sætta sig við 0-2 tap. Leikið var í Akraneshöll, en leikurinn var færður inn með skömmum fyrirvara vegna veðurs. Talsvert mikið rok var á Akranesvelli og vart boðlegt að leika þar knattspyrnu við slíkar aðstæður.

Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik. Selfyssingar þó ívið sterkari, héldu boltanum vel á köflum og sköpuðu sér ágæt færi. Þær komust yfir á 30. mínútu leiksins með marki frá Lauren Elizabeth Hughes. Skagakonur voru hvergi af baki dottnar og reyndu að svara strax. Fengu þær nokkur prýðileg marktækifæri sem ekki tókst að nýta og staðan í hálfleik því 0-1 gestunum í vil.

Bæði lið mættu ákveðin til síðari hálfleiks og hvorugt ætlaði að gefa nokkuð eftir. Skagakonur bættu í og hugðust jafna metin. Þær áttu nokkra mjög góða leikkafla þar sem sóknarleikurinn var í fyrirrúmi. Gestirnir frá Selfossi máttu prísa sig sæla að halda forystunni. Skagakonur máttu hins vegar naga sig í handarbökin að hafa ekki klárað færin sín. Á 73. mínútu skoruðu gestirnir sitt annað mark og þar var á ferðinni Eva Lind Elíasdóttir. Var sem drægi heldur af ÍA fyrst eftir seinna mark Selfyssinga og róðurinn orðinn þungur. Þær áttu þó ágætar tilraunir til að minnka muninn seint í leiknum en það tókst ekki. Selfyssingar sigruðu því með tveimur mörkum gegn engu og héldu heim á leið með þrjú stig í farteskinu.

Skagakonur eru stigalausar á botni deildarinnar eftir þrjá fyrstu leiki sumarsins. Næst leika þær gegn Fylki á útivelli laugardaginn 28. maí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir