Hrovje Tokic skoraði mark Víkings. Ljósm. Alfons.

Víkingar fengu skell gegn Fjölni

Draumabyrjun Víkings Ólafsvíkur í Pepsi deild karla í knattspyrnu tók enda í kvöld. Liðið mætti Fjölni í Grafarvoginum og fékk skell, tapaði með 5 mörkum gegn einu.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik, eða allt þar til Martin Lund Petersen kom Fjölni yfir á 28. mínútu eftir langa sendingu frá hægri. Aðeins tveimur mínútum síðar bjargaði Emir Dokara á línu og leikmenn Víkings virtust slegnir eftir markið. Fjölnismenn fengu aftur á móti aukinn vind í seglin og bættu öðru marki við á 42. mínútu. Eftir að hafa komist upp að endamörkum var boltanum rennt út í teiginn þar sem Gunnar Már Guðmundsson kom aðvífandi og hamraði boltann upp í þaknetið.

Fjölnismenn fengu síðan dauðafæri undir lok fyrri hálfleiks en Einar Hjörleifsson varði vel. Víkingar hins vegar heillum horfnir og eflaust sínu fegnastir að komast í leikhlé.

Víkingar virtust hafa farið vel yfir hlutina í hléinu því þeir mættu mjög ákveðnir til síðari hálfleiks. Aðeins tvær mínútur voru liðnar þegar Kenan Turudja komst í dauðafæri en skot hans var varið í horn. Upp úr hornspyrnunni kom síðan mark þeirra og þar var á ferðinni Hrvoje Tokic sem skoraði af stuttu færi. En markið dugði Víkingum skammt. Aðeins mínútu síðar skoruðu Fjölnismenn þriðja mark sitt. Viðar Ari Jónsson fékk boltann djúpt á kantinum, kom inn á völlinn og lét vaða. Þrumufleygur hans söng í netinu og staðan 3-1 fyrir Fjölni.

Jafnt var á með liðunum næsta hálftímann. Leikurinn var nokkuð hraður en hvorugt liðið náði að skapa sér afgerandi marktækifæri. Heimamenn bættu við á 78. mínútu með glæsilegu marki. Hans Viktor Guðmundsson lét vaða af löngu færi og skot hans small í þverslánni og fór þaðan í netið. Staðan 4-1 og möguleikar Víkings í leiknum hverfandi.

Fjölnir gerði endanlega út um leikinn á 84. mínútu. Marcus Solberg Mathiasen fékk sendingu inn fyrir, tapaði boltanum frá sér en eftir mistök í vörn Ólsara náði hann skoti á markið sem hafnaði í netinu.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og stórt tap Víkings því staðreynd. Þeir eru þó enn í 2. sæti deildarinnar með 10 stig eftir fimm leiki. Það gæti þó breyst annað kvöld þegar FH-ingar, sem hafa 9 stig í 3. sæti, mæta toppliði Stjörnunnar.

Stjarnan er einmitt næsti andstæðingur Víkings. Liðin mætast í bikarleik í Garðabænum fimmtudaginn 26. mái næstkomandi. Næsti deildarleikur Víkings er síðan gegn Íslandsmeisturum FH í Hafnarfirði mánudaginn 30. maí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir