Hreyfivika á ýmsum stöðum á Vesturlandi

Hin árlega Hreyfivika, MOVE WEEK hefst á morgun, mánudaginn 23. maí. Verkefnið er hluti af stærstu lýðheilsuherferð í Evrópu en árið 2015 voru yfir milljón þátttakendur. Markmið verkefnisins er að fjölga íbúum í Evrópu sem hreyfa sig reglulega. Nokkur sveitarfélög á Vesturlandi ætla að taka þátt í Hreyfivikunni með því að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Í Borgarbyggð er búið að skipuleggja dagskrá þar sem boðið verður upp á hreyfingu fyrir alla aldurshópa alla vikuna í Borgarnesi, á Hvanneyri og Kleppjárnsreykjum. Það verður frítt í þreksalinn og sundlaugina á milli kl. 6 og 8 mánudag til föstudag. Iðkendur Skallagríms í knattspyrnu og körfuknattleik eru hvattir til að bjóða vinum sínum með á æfingar þessa viku. Frítt verður á allar æfingar hjá Umf. Reykdælum og frítt verður í sund á Kleppjárnsreykjum á fimmtudagskvöldinu. Einnig verður boðið upp á fótboltaæfingar fyrir fullorðna, spinning, brennó, vatnsleikfimi, blak, félagsvist, hádegispúl og fleira skemmtilegt. Nánari dagskrá má finna í auglýsingu á bakhlið síðasta Skessuhorns.

Grundarfjarðarbær ætlar einnig að bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu fyrir alla. Meðal þess sem verður í boði eru bjöllutímar, frisbígolf, gönguferðir og skokk. Golfvöllurinn í Suður-Bár verður opinn alla virka daga og aðgangur ókeypis.

Í Stykkishólmi verður fólki boðið upp á mismunandi hreyfingu og fræðslu fyrir alla aldurshópa. Meðal þess sem verður í boði er Zumba, stöðvaþjálfun,matreiðslunámskeið með Röggu Nagla, fitness box og einnig er fólk hvatt til að mæta í göngu upp á Drápuhlíð á miðvikudeginum.

Íbúar í Dalabyggð ætla einnig að taka þátt í Hreyfivikunni en þar verður m.a. boðið upp á dans, spilavist og gönguferðir upp á Tungustapa í Sælingsdal, Múlahyrnu í Saurbæ og Tregastein í Hörðudal. Einnig stendur til að spila fótbolta á Laugum í Sælingsdal á mánudags- og miðvikudagskvöldi en eins og segir í tilkynningu verður ekki hætt að spila fyrr en allir hafa gefist upp og enginn er sammála um sigurvegara.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir