Jafnt hjá ÍA og botnliði Fylkis

Fimmta umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu hófst í dag með leik ÍA og Fylkis á Akranesvelli. ÍA hafði einn sigur fyrir leik kvöldsins en gestirnir voru stigalausir á botni deildarinnar. Fylkismenn voru engu að síður sterkari í leiknum heilt yfir en það er ekki spurt að því að leikslokum. Þá höfðu liðin skorað sitt markið hvort og úrslitin því jafntefli, 1-1.

Leikurinn var tíðindalítill framan af. Gestirnir voru sterkari en sköpuðu sér engin afgerandi marktækifæri. Skagamenn komu boltanum í netið en flagg aðstoðardómarans fór á loft og rangstaða var dæmd. Á 28. mínútu kom síðan fyrsta mark leiksins og var það gestanna. Lítið var um að vera á vellinum þegar frábær sending kom frá hægri og Alberg Brynjar Ingason skallaði boltann í netið.

Skagamenn fengu dauðafæri strax í næstu sókn eftir markið. Þórður Þorsteinn átti þá góða fyrirgjöf eftir sprett upp hægri kantinn, beint á Ásgeir sem skaut yfir úr dauðafæri.

Skagamenn jöfnuðu svo á 38. mínútu og þar var á ferðinni Garðar Gunnlaugsson. Góð aukaspyrna frá hægri fann koll Ármanns Smára. Hann skallaði boltann fyrir fætur Garðars sem kláraði vel af stuttu færi.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum. Fylkismenn voru sterkari í síðari hálfleik og sóttu á köflum þungt. Þeir náðu hins vegar ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri heldur voru það Skagamenn sem fengu besta færið. Steinar Þorsteinsson átti góðan sprett og komst einn í gegnum vörn Fylkis. Færið var aftur á móti heldur þröngt og varnarmaður kom aðvífandi. Lagði hann því boltann inn á völlinn á Ásgeir. Hann lagði hann til baka á Albert Hafsteins en skot hans var laust og beint á varnarmann Fylkis sem kominn var á marklínuna.

Lokatölur því sem fyrr segir eitt mark gegn einu. Skagamenn hafa því fjögur stig eftir fyrstu fimm leiki sumarsins og sitja sem stendur í 10. sæti deildarinnar.

Næsti deildarleikur ÍA fer fram sunnudaginn 29. maí gegn Víkingi R. á útivelli. Í millitíðinni leikur liðið hins vegar gegn KV í bikarnum. Sá leikur fer fram miðvikudaginn 25. maí á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir