Ljósm. Guðmundur Bjarki.

ÍA tapaði stórt fyrir norðan

Önnur umferð Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu var leikin í gær. ÍA mætti Þór/KA á Þórsvelli. Fyrirfram var búist við því að á brattann yrði að sækja fyrir Skagakonur, Akureyringum víðast hvar spáð toppbaráttu í sumar en Skagaliðinu botnbaráttu. Fór svo að lokum að Þór/KA vann stórsigur, 4-0.

Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik en heimaliðið var þó ívið sterkara. Þær fengu ágætt færi eftir korters leik en skutu yfir markið úr vítateignum. Fyrsta mark leiksins kom síðan á 31. mínútu og það gerði mexíkóska landsliðskonan Stephany Mayor. Þór/KA vann boltann á miðjunni, Andrea Mist Pálsdóttir sendi langa sendingu á Stephany sem kláraði færið vel í vítateignum.

Leikurinn var fremur tíðindalítill til loka fyrri hálfleiks. Heimaliðið mætti ákveðið til þess síðari og tók stjórn leiksins í sínar hendur. Eftir klukkustundar leik fékk Þór/KA vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hönd varnarmanns ÍA. Sandra María Jenssen steig á punktinn og skoraði annað mark Akureyringa.

Þór/KA efldist enn við markið og voru líklegri til að bæta við en ÍA að minnka muninn. Eftir hornspyrnu heimakvenna og barning í teignum náðu þær skoti að marki en Skagakonur björguðu á línu. Á 73. mínútu kom svo þriðja mark leiksins og þar var Sandra aftur á ferðinni. Hún fékk góða sendingu, sneri af sér varnarmann og skoraði af miklu öryggi. Skömmu síðar komst hún ein inn fyrir vörn ÍA en Ásta Vigdís varði frá henni úr dauðafæri.

Þegar þrjár mínútur lifðu leiks kom Sandra boltanum í netið en var dæmd rangstæð. Sandra fullkomnaði hins vegar þrennuna á lokamínútu leiksins þegar hún var alein á markteig Skagakvenna og skoraði auðveldlega eftir góða sendingu frá vinstri.

Leiknum lauk því sem fyrr segir 4-0 sigri Þórs/KA. Skagakonur eru sem stendur stigalausar á botni deildarinnar en aðeins hafa tveir leikir verið leiknir á tímabilinu. Næst leika þær gegn Selfossi á Akranesvelli þriðjudaginn 24. maí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir