Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar

Á uppstigningardag hélt Tónlistarfélag Borgarfjarðar upp á hálfra aldar afmæli sitt með því að bjóða til tónlistarviðburða þann dag allan. Áætlað er að um 600 gestir hafi mætt á viðburðina sem í boði voru víðsvegar um Borgarnes. Dagskráin hófst með söng Söngbræðra í Brákarhlíð, síðan sat Birgir Þórisson við flygill Barónsins á Hvítárvöllum í Safnahúsinu. Þá efndi Tónlistarskóli Borgarfjarðar til tónleika þar sem nemendur og kennarar skólans glöddu viðstadda. Áður færði Tónlistarfélagið skólanum nýútkomna bók um sögu tónlistar að gjöf. Þar minnist Hjörtur Þórarinsson þeirra Friðjóns Sveinbjörnssonar og Jakobs Jónssonar á Varmalæk en þeir þrír fóstruðu tónlistarfélagið um langt árabil.

Klukkan tvö var komið að þýskri messu Schuberts í Borgarneskirkju er kór kirkjunnar og Reykholtskórinn fluttu í Guðsþjónustu. Í Landnámssetrinu söng Branddís Hauksdóttir við undirleik Zsuzsönnu Budai og þá var skundað aftur upp í Brákarhlíð til að taka þátt í fjöldasöng með þeim Snorra Hjálmarssyni á Fossum og Bjarna Guðmundssyni á Hvanneyri. Og enn í Borgarneskirkju á þrennu: Fyrst leiddi Jónína Erna þær systur Sigríði Ástu og Hönnu Ágústu dætur Theodóru og Olgeirs, Steinunni í Hjarðarholti og Ástu Marý í Skipanesi í fallegum söng. Eftir það flutti Steinunn frá Brennistöðum orgeltónlist áður en Gleðigjafarnir og Freyjukórinn luku þriggja tíma stund. Að endingu var Soffía frá Einarsnesi mætt með Ingibjörgu Elínu bassaleikara og Pétri Ben gítarleikara til að tóna Tónlistarfélag Borgarfjarðar inn í nýja hálföld.

Stjórn Tónlistarfélags Borgarfjarðar er skipuð þeim Önnu Guðmundsdóttur á Borg, Einari G. Pálssyni í Borgarnesi og Jónínu Eiríksdóttur í Reykholti. Þeim ber að þakka fyrir ævintýralega góða afmælishátíð sem ber þeim fagurt vitni um áræði, víðsýni og áhuga á tónlistarræktun og til að gera okkur liljum vallarins lífið yndislegra.

Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_1 Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_2 Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_3 Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_4 Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_5 Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_6 Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_8 Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_9 Samfelld tónlistarveisla á afmæli Tónlistarfélags Borgarfjarðar_10

Guðlaugur Óskarsson skráði og tók meðfylgjandi myndir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Krufning í FSN

Nemendur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði voru önnum kafnir í einni skólastofunni í síðustu viku er fréttaritara Skessuhorns bar að... Lesa meira