Einar Hjörleifsson varði vítaspyrnu Garðars Gunnlaugsonar snemma síðari hálfleiks. Ljósm. af.

Víkingur sigraði Vesturlandsslaginn

Víkingur Ólafsvík og ÍA mættust í Vesturlandsslag í Pepsi deild karla í knattspyrnu í kvöld. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar í Ólafsvík voru prýðilegar. Völlurinn góður og örlítil gola. Heimamenn voru betri allan leikinn og sigruðu að lokum með þremur mörkum gegn engu.

Víkingar komust yfir strax á 5. mínútu leiksins og þar var á ferðinni William Dominguez. Alfreð Már Hjaltalín sendi boltann inn á völlinn á William sem lagði boltann frá vítateigsboganum framhjá Árna Snæ Ólafssyni í marki Skagamanna.

ÍA fékk ágætt færi eftir lága aukaspyrnu frá hægri eftir korters leik en Einar Hjörleifsson varði vel frá Garðari Gunnlaugssyni. Heimamenn áttu svo góða tilraun þegar löng sending fann Pape Mamadou Faye sem fór fram hjá Þórði Þorsteini Þórðarsyni bakverði en skaut framhjá markinu. Víkingar voru heldur sterkari og bættu við öðru marki sínu á 38. mínútu. Pape sendi boltann fyrir markið, beint á kollinn á Hrvoje Tokic sem skoraði sitt fjórða mark í aðeins þremur leikjum.

Áður en flautað var til hálfleiks fékk Garðar færi til að minnka metin fyrir ÍA. Hann fékk boltann hægra megin í teignum eftir góða sendingu en skaut yfir.

Skagamenn fengu vítaspyrnu á 52. mínútu þegar brotið var á Jóni Vilhelm Ákasyni. Garðar steig á punktinn en Einar Hjörleifsson varði frá honum. Boltinn féll aftur fyrir fætur Garðars en Einar varði öðru sinni. Víkingar efldust við þetta og stjórnuðu gangi leiksins. Tokic var hársbreitt frá því að auka muninn í þrjú mörk eftir góða sókn en skot hans fór í þverslána og út. Skagamenn fengu þó sín færi. Ber þar helst að nefna skalla frá Garðari sem Einar varði glæsilega í markinu.

Á 82. mínútu gerðu Víkingar síðan endanlega út um leikinn. Pontus Nordenberg átti góða fyrirgjöf á nærstöngina sem Aleix Egea Acame skallaði í netið. Staðan orðin þrjú mörk gegn engu og Víkingar með pálmann í höndunum.

Enn áttu þó eftir að koma færi. Víkingar hefðu getað bætt fjórða markinu við á lokamínútu venjulegs leiktíma þegar Tokic komst einn í gegn. Hann sendi boltann út í teiginn en Ármann Smári Björnsson komst inn í sendinguna og Skagamenn geystust í sókn. Fyrirgjöf frá vinstri fann Ólaf Val Valdimarsson í teignum en hann þrumaði boltanum beint í Pontus sem stóð á marklínunni. Lokatölur í Ólafsvík því sem fyrr segir 3-0, Víkingi í vil.

Úrslit leiksins þýða að Víkingar tylla sér á topp Pepsi deildarinnar, að minnsta kosti þangað til annað kvöld. Þeir hafa tíu stig eftir fyrstu fjóra leikina. ÍA er hins vegar í 9. sæti sem stendur með þrjú stig efitr jafn marga leiki.

Skagamenn leika næst laugardaginn 21. maí gegn Fylki á Akranesvelli.

Daginn eftir, sunnudaginn 22. maí, leika Víkingar gegn Fjölni í Grafarvoginum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir