Skagakonur þurftu að sætta sig við tap í nýliðaslagnum gegn FH í dag. Ljósm. Guðmundur Bjarki.

Tap í fyrsta leik

ÍA lék sinn fyrsta leik í Pepsi deild kvenna í knattspyrnu á Akranesvelli í dag þegar FH-ingar komu í heimsókn. Um nýliðaslag var að ræða, en bæði lið tryggðu sér sæti í deild þeirra bestu fyrir þetta keppnistímabil. Skagakonur fengu ekki sína óskabyrjun í Íslandsmótinu þetta árið, því FH-ingar sigruðu með einu marki gegn engu.

Leikurinn fór fremur rólega af stað og hvorugt lið skapaði sér afgerandi marktækifæri. Skagakonur voru þó heldur sterkari stjórnuðu gangi mála inni á vellinum. Þegar um hálftími var komst Megan Dunnigan upp að endamörkum vinstra megin eftir góðan sprett. Hún lagði boltann út í teiginn á Bergdísi Fanneyju Einarsdóttur sem skaut yfir markið úr sannkölluðu dauðafæri. Botninn datt heldur úr leiknum eftir það og staðan var markalaus í hálfleik.

Gestirnir úr Hafnarfirði gerðu tvær breytingar á liði sínu í leikhléinu og byrjuðu síðari hálfleik af krafti. Þær skoruðu eina mark leiksins á 54. mínútu eftir mistök í vörn ÍA. Sending milli varnarmanna rataði þá fyrir fætur Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur sem komst ein inn fyrir vörn ÍA og skoraði fram hjá Ástu Vigdísi Guðlaugsdóttur í markinu.

FH var áfram betra lið vallarins fyrst eftir markið, létu boltann ganga sín á milli og stjórnuðu leiknum. Fátt markvert gerðist og leikurinn var fremur tíðindalítill til loka. Skagakonur fengu þó færi til að jafna á lokamínútum leiksins þegar Jaclyn Pourcel átti góðan skalla að marki eftir aukaspyrnu en markvörður FH varði glæsilega alveg út við stöng.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og lokatölur á Akranesvelli því 0-1, FH í vil.

Næsti leikur ÍA fer fram miðvikudaginn 18. maí næstkomandi þegar liðið mætir Þór/KA norður á Akureyri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir