ÍA og FH mættust síðasta haust í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil 1. deildar kvenna. Þann leik sigraði ÍA 1-0 með marki Megan Dunnigan. Ljósm. Guðmundur Bjarki.

Skagakonur leika sinn fyrsta leik í dag

Fyrsti leikur ÍA í Pepsi deild kvenna í knattspyrnu fer fram í dag þegar liðið tekur á móti FH klukkan 14.

Liðin eru bæði nýliðar í deild þeirra bestu en þau mættust einmitt síðasta haust í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil 1. deildar á Akranesvelli. Þann leik sigraði ÍA 1-0 með marki frá Megan Dunnigan.

Lið ÍA hefur gengið í gegnum miklar mannabreytingar frá því á síðasta sumri. Tíu leikmenn eru horfnir á braut í bili að minnsta kosti; átta hafa lagt skóna á hilluna og tvær eru barneignarfríi. Á móti kemur að ungir og efnilegir leikmenn hafa fengið tækifæri í vetur, auk þess sem liðið hefur verið styrkt með leikmönnum erlendis frá.

Þórður Þórðarson þjálfari sagði í viðtali við Skessuhorn síðasta miðvikudag að sér litist vel á keppni komandi sumars í deild þeirra bestu. „Mér líst vel á komandi sumar. Þetta verður erfitt en jafnframt mjög skemmtilegt,“ sagði Þórður. Enn fremur sagði hann að liðið stefndi að því að halda sæti sínu í deildinni. „Markmið okkar númer eitt, tvö og þrjú er að vera áfram með meistaraflokk kvenna í efstu deild árið 2017.“

Leikurinn hefst kl. 14 í dag á Akransvelli, sem fyrr segir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir