Hrovje Tokic skoraði mark Víkings. Ljósm. Alfons.

Víkingar sóttu stig til Eyja

Víkingur Ólafsvík fór til Vestmannaeyja og mætti ÍBV í Pepsi deild karla í knattspyrnu fyrr í kvöld. Leiknum lyktaði með jafntefli, liðin gerðu eitt mark hvort og hlutu bæði eitt stig að launum.

Fyrri hálfleikur var fremur bragðdaufur og fátt markvert gerðist. Hvorugt lið náði að ógna marki andstæðingana með afgerandi hætti, ef frá er talið mark sem Víkingar skoruðu en var dæmt af vegna rangstöðu.

Ekki virtist margt ætla að breytast í upphafi síðari hálfleiks og lítið gerðist á vellinum. Einar Hjörleifsson, sem kom inn á í mark Víkings, fékk að taka á honum stóra sínum eftir góða skyndisókn Eyjamanna. Nokkru síðar náðu heimamenn að koma boltanum í netið en dæmt var brot skömmu áður og markið dæmt af.

Leikurinn virtist vera að renna út í sandinn þegar loks kom fyrsta löglega mark leiksins á 83. mínútu. Það gerði Sigurður Grétar Guðjónsson fyrir ÍBV. Hann fékk langa sendingu frá hægri, hélt varnarmanni frá sér fór fram hjá öðrum og skoraði framhjá Einari í markinu.

En Eyjamenn voru ekki lengi yfir. Á 87. mínútu féll Hrvoje Tokic í teignum og dómarinn dæmdi heldur ódýra vítaspyrnu við litla hrifningu Eyjamanna. Tokic tók spyrnuna sjálfur, skoraði af miklu öryggi og jafnaði metin fyrir Víkinga.

Liðin fengu síðan sitt dauðafærið hvort á síðustu tveimur mínútum leiksins en bæði fóru þau forgörðum. Leiknum lauk því með jafntefli, 1-1.

Úrslitin þýða að Víkingur Ólafsvík hef sjö stig eftir fyrstu þrjá leiki mótsins og situr í 2. sæti deildarinnar þegar þessi orð eru rituð.

Næst leika Víkingar á öðrum degi hvítasunnu, mánudaginn 16. maí næstkomandi, þegar ÍA kemur í heimsókn til Ólafsvíkur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir