Garðar Gunnlaugsson kemur boltanum yfir línuna eftir atgang í vítateig Fjölnis. Reyndist það eina mark leiksins. Ljósm. Guðmundur Bjarki.

Fyrsti sigur ÍA kominn í hús

Eftir tvo útileiki í röð lék ÍA fyrsta heimaleik sinn í Pepsi deild karla í knattspyrnu í kvöld. Skagamenn tóku á móti Fjölni og fóru með sigur af hólmi, 1-0.

Jafnt var á með liðunum í upphafi og bæði lið náðu að skapa sér hálffæri snemma leiks. Eftir það datt botninn aðeins úr leiknum og lítið var að gerast þegar Skagamenn fengu hornspyrnu á 17. mínútu. Boltanum var spyrnt fyrir markið og Fjölnismenn lentu í stökustu vandræðum með að koma honum frá. Eftir nokkuð klafs í teignum var það Garðar Gunnlaugsson sem kom að lokum boltanum yfir línuna og heimamönnum í 1-0.

Gestirnir reyndu að bregðast skjótt við eftir að hafa lent undir, áttu tvær efnilegar sóknir en heimamenn vörðust vel. Eftir það var fyrri hálfleikur jafn allt til loka.

Bæði lið byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti en náðu ekki að skapa sér afgerandi marktækifæri. Skagamenn þéttu vörnina eftir því sem leið á og freistuðu þess að halda fengnum hlut. Seint í leiknum hefðu bæði lið geta bætt mörkum við leikinn. Fyrst voru það Skagamenn þegar Ármann Smári sem laumaði sér bakvið vörn Fjölnis úr aukaspyrnu og skallaði boltann rétt yfir markið. Næst var komið að Fjölni eftir góða fyrirgjöf frá vinstri en Árni Snær varði vel í marki Skagamanna. Ekki voru fleiri mörk skoruð og lokatölur því sem fyrr segir 1-0, ÍA í vil og fyrsti sigur þeirra í deildinni staðreynd.

Þeir sitja því í 9. sæti með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leiki sumarsins.

Næst mæta þeir Víkingum vestur í Ólafsvík á öðrum degi hvítasunnu, mánudaginn 16. maí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.