Samstarf Skallagríms og Fram skilar fyrsta titlinum

Sameiginlegt lið Skallagríms og Fram varð í síðustu viku Reykjavíkurmeistari í 3. flokki drengja í keppni B liða. Sigruðu þeir Víking R. með þremur mörkum gegn engu í lokaleik mótsins og luku keppni með fullt hús stiga. Þeir unnu alla fimm leiki sína, skoruðu 30 mörk en fengu aðeins á sig fimm. Þetta kemur fram á heimasíðu Skallagríms.

Elís Dofri var þriðji markahæstur í riðlinum með átta mörk í fimm leikjum en Framarinn Aron Snær var næst markahæstur með tíu mörk. Elís Dofri og Elvar léku alla leikina með B liðinu, Gunnar Örn tvo leiki og Fannar og Stefán Jóhann einn leik hvor.

A liðið lenti í öðru sæti með 15 stig í sjö leikjum, taplausir en gerðu þrjú jafntefli. Í lokaleiknum gerðu þeir jafntefli við Reykjavíkurmeistara Víkings. Brynjar Snær lék fimm leiki með liðinu og Elís Dofri fjóra.

C liðið endaði sitt mót í fjórða sæti með níu stig úr sex leikjum, þrjá sigra og þrjú töp. Þar léku Elvar Atli, Fannar, Stefán, Heimir, Gunnar, Daníel og Gutti flesta leikina. Fannar varð næst markahæstur með fimm mörk.

„Reykjavíkurmótið gekk afar vel og strákarnir hafa tekið miklum framförum í vetur. Það er þroskandi og lærdómsríkt fyrir þá að æfa og spila með Framstrákunum sem hafa tekið afar vel á móti þeim,“ segir á heimasíðu Skallagríms.

Líkar þetta

Fleiri fréttir