Ljósm. gbh.

Skagamenn töpuðu naumlega fyrir Íslandsmeisturunum

ÍA og FH mættust í annarri umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu í gær. Leikið var á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði.

Leikurinn fór fremur hægt af stað. FH-ingar héldu boltanum en Skagamenn lágu til baka og freistuðu þess að beita skyndisóknum. Heimamenn voru sterkari en komust lítt áleiðis. Varnarmúr Skagamanna hélt þar til á 41. mínútu leiksins. Þá átti Atli Guðnason fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn á Steven Lennon sem skallaði boltann í netið. Heimamenn leiddu því í hálfleik með einu marki gegn engu.

Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði. FH-ingar stjórnuðu leiknum og leikmenn ÍA vörðust. Fátt markvert gerðist þar til á 57. mínútu. Þá braut markaskorarinn Steven Lennon illa á Steinari Þorsteinssyni, fór með takkana í legg hans og hlaut rautt spjald að launum. Steinar mátti prísa sig sælan að meiðast ekki illa. Hann þurfti að fara af velli um tíu mínútum síðar.

Botninn datt úr leiknum og lítið gerðist þar til Skagamenn jöfnuðu gegn gangi leiksins á 83. mínútu. Þar var að verki Jón Vilhelm Ákason eftir sendingu frá hægri. Markvörður FH missti af boltanum sem féll fyrir Jón Vilhelm sem skoraði auðveldlega í autt markið.

Staðan var ekki lengi jöfn. Fjórum mínútum síðar fóru FH-ingar í sókn og boltinn barst inn á teig. Eftir skot í stöngina féll boltinn út í teig og fyrir fætur Alta Viðars Björnssonar sem sendi boltann viðstöðulaust á markið. Litlu munaði að varnarmaður ÍA bjargaði á línu en skotið fór af honum í stöngina og inn.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og Skagamenn urðu því að játa sig sigraða með tveimur mörkum gegn engu. Erfið byrjun á mótinu, tvö töp í tveimur útileikjum í fyrstu umferðunum. Skagamenn fá tækifæri til að rétta úr kútnum fimmtudaginn 12. maí, þegar þeir taka á móti Fjölni í fyrsta heimaleik sumarsins á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir