Hrvoje Tokic skallar knöttinn í netið og tryggir Víkingi sigur á Val í fyrsta heimaleik sumarsins. Ljósm. af.

Sigur í fyrsta heimaleik Víkings

Víkingur Ólafsvík lék fyrsta heimaleik sinn í Pepsi deild karla í gær þegar Valur kom í heimsókn.

Jafnræði var með liðunum fyrstu 20 mínútur leiksins þar til Víkingur komst yfir á 24. mínútu eftir mistök í vörn Vals. Cristian Liberato átti langa spyrnu frá marki sínu. Ingvar Kale, markvörður gestanna, kallaði hátt og snjallt að varnarmenn sínir skyldu láta boltann fara, hann myndi taka við honum. Varnarmenn Vals hlýddu skipuninni og það nýtti Hrvoje Tokic sér. Hann komst bakvið vörnina, náði boltanum á undan markverðinum og setti hann í opið markið.

Víkingar voru betra liðið á vellinum og það var gegn gangi leiksins þegar Valsmenn jöfnuðu á 43. mínútu. Kristinn Freyr Sigurðsson komst upp að endalínu hægra megin, sendi fasta sendingu fyrir á Rolf Toft sem þrumaði boltanum í netið.

Gestirnir voru heldur sterkari fyrst eftir hléið en Víkingar virtust aðeins hafa tapað einbeitingunni. Þeir fóru þó að sækja í sig veðrið að nýju þegar leið á leikinn. Á 75. mínútu átti William Dominguez frábæran sprett um miðju vallarins. Hann fann Þórhall Kára Knútsson vinstra megin sem sendi boltann fyrir. Hrvoje Tokic reis hæst í teignum, stýrði boltanum í hornið og kom Víkingi yfir á nýjan leik. Reyndist það sigurmark leiksins. Lokatölur í Ólafsvík 2-1 og Víkingur með fullt hús stiga eftir tvo fyrstu leikina.

Næst leikur Víkingur gegn ÍBV í Vestmannaeyjum. Sá leikur fer fram fimmtudaginn 12. maí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira