Íslandsmeistarar Snæfells eiga tvo fulltrúa í liði ársins, besta þjálfarann, besta varnarmanninn, besta erlenda leikmanninn og prúðasta leikmanninn. Ljósm. sá.

Vestlendingar sópa til sín verðlaunum

Snemma á fjórða tímanum í dag var gert upp tímabilið í Domino‘s deildum karla og kvenna í körfuknattleik, sem og 1. deildum karla og kvenna. Skemmst er frá því að segja að Vestlendingar sópuðu til sín verðlaunum.

Íslandsmeistararnir með fjölda viðurkenninga

Úrvalslið Domino‘s deildar kvenna skipa Gunnhildur Gunnarsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir úr Snæfelli, Borgnesingurinn Sigrún Ámundadóttir sem leikur með Grindavík, Guðbjörg Sverrisdóttir úr Val og systir hennar Helena Sverrisdóttir úr Haukum. Helena var enn fremur valin besti leikmaður deildarinnar.

Gunnhildur er besti varnarmaðurinn, Ingi Þór Steinþórsson besti þjálfarinn, Haiden Palmer besti erlendi leikmaðurinn og Berglind Gunnarsdóttir prúðasti leikmaðurinn, öll úr Snæfelli.

Borgnesingurinn Pawel Ermolinskij var valinn í úrvalslið Domino‘s deildar karla ásamt liðsfélaga sínum úr KR, Helga Má Magnússyni. Einnig eru í úrvalsliðinu Ragnar Ágúst Nathanaelsson úr Þór Þorlákshöfn, Kári Jónsson úr Haukum og besti leikmaður deildarinnar Haukur Helgi Pálsson úr Njarðvík.

Skallagrímur áberandi í 1. deildunum

Kristrún Sigurjónsdóttir og Sólrún Sæmundsdóttir úr deildarmeisturum Skallagríms eiga báðar sæti í úrvalsliðið 1. deildar kvenna, ásamt Fanneyju Lind Tómasdóttur úr Þór Akureyri og KR-ingunum Perlu Jóhannesdóttur og Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttir, sem var valin besti leikmaðurinn.

Sigtryggur Arnar Björnsson úr Skallagrími var valinn besti leikmaður 1. deildar karla og á sæti í úrvalsliðinu ásamt Ragnari Friðrikssyni og Tryggva Hlinasyni úr Þór Akureyri, Róbert Sigurðssyni úr Fjölni og Valsmanninum Illuga Auðunssyni.

Þá er Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, besti þjálfari 1. deildar karla.

Líkar þetta

Fleiri fréttir