Þrjú efstu pör á Vesturlandsmótinu 2016. F.v. Karl Alfreðsson, Bjarni Guðmundsson, Þorgeir Jósefsson, Tryggvi Bjarnason, Guðmundur Ólafsson og Hallgrímur Rögnvaldsson. Ljósm. mm.

Vesturlands- og Borgarfjarðarmeistarar í bridds

Í síðustu viku lauk Opna Borgarfjarðarmótinu í bridds með þátttöku 16 para frá Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði. Mótið var jafnframt Vesturlandsmót í tvímenningi og því keppt um tvo titla í senn. Spilað var einu sinni í Logalandi en tvö síðari keppniskvöldin fóru fram á Akranesi. Keppni efstu liða var nokkuð jöfn og skiptust þrjú þeirra á um forystuna fram á síðustu umferð. Þeir sem toppuðu á réttum tíma voru félagarnir Tryggvi Bjarnason og Þorgeir Jósefsson og eru þeir Vesturlands- og Borgarfjarðarmeistarar 2016 með 59,3% skor. Í öðru sæti urðu Karl Alfreðsson og Bjarni Guðmundsson með 58,7% skor og þriðju Guðmundur Ólafsson og Hallgrímur Rögnvaldsson með 56,5%. Í fjórða sæti urðu svo Jón Eyjólfsson og Baldur Björnsson með 55% og fimmtu Ingimundur Jónsson og Jón H Einarsson með 54,1%. Mótið var jafnframt síðasta keppni vorsins hjá vestlenskum spilurum sem nú líta upp frá spilaborðunum og halda út í vorið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir