Dagur umhverfisins í Hvalfjarðarsveit

Degi umhverfisins voru gerð góð skil í skólum Hvalfjarðarsveitar; Skýjaborg og Heiðarskóla. Skólarnir eru grænfánaskólar og leggja mikla áherslu á umhverfismennt en á degi umhverfisins nýttu báðir skólarnir tækifærið og veðurblíðuna til útivistar og hreinsunar á umhverfinu. Eldri deild leikskólans Skýjaborgar fór í gönguferð um Melahverfið með það fyrir augum að tína rusl og gera umhverfið hreinna. Yngri deildin dvaldi á skólalóðinni og lagði áherslu á sitt nánasta umhverfi.

Í Heiðarskóla hófst dagurinn á ráðstefnu þar sem Tómas Knútsson greindi frá starfi Bláa hersins, en frá árinu 1995 hefur Blái herinn tekið þátt í og framkvæmt fjöldan allan af verkefnum á sviði umhverfismála, fræðslu og og hreinsun svæða, aðallega við sjávarstrendur, opin svæði og í höfnum landsins. Jónína Hólmfríður Pálsdóttir hélt einnig erindi og fræddi ráðstefnugesti um lífríki Grunnafjarðar og svokallaða Ramsar-samþykkt sem er samþykkt um votlendi sem hafa mikilvægt, alþjóðlegt gildi. Grunnafjörðurinn er einmitt eitt af þessum Ramarsvæðum.

Að lokinni ráðstefnu hélt allur skólinn af stað í fjöruhreinsun og náttúrufræðslu- og upplifun við Grunnafjörð sem endaði í grillveislu í Álfholtsskógi. Það safnaðist heilmikið af rusli, sem var flokkað eins og hægt var í plast, timbur og dósir – en merkilegasti fundurinn var kannski flöskuskeyti sem fannst í fjörunni. Skeyti sem hafði verið varpað í Eiðisvatn á vordögum ársins 2010!

Margir lögðu hönd á plóg til að gera daginn sem ánægjulegstan. Ungmenna- og íþróttafélag Hvalfjarðarsveitar lagði til poka í fjöruhreinsun og aðstoðaði við útigrillið. Kvenfélagskonur í kvenfélaginu Lilju gáfu múffur, kleinur og kanilsnúða í nesti og umhverfisnefnd Hvalfjarðarsveitar aðstoðaði við útfærslu og skipulag og Íslenska Gámafélagið sá um að koma ruslinu í réttan farveg.

Dagur umhverfisins í Hvalfjarðarsveit var sérlega fallegur og vel heppnaður dagur sem allir hlutaðeigandi geta verið stoltir af, og sérstaklega nemendur skólanna sem lögðu sitt af mörkum til fegrunar umhverfis í Hvalfjarðarsveit. Frábært framtak og skemmtilegar myndir tala sínu máli á heimasíðum skólanna.

 

Arnheiður Hjörleifsdóttir

Ljósm: Heiðarskóli.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir