Gunnhildur Gunnarsdóttir fyrirliði Snæfells var valin í úrvalslið síðari umferðar ásamt liðsfélaga sínum Haiden Palmer. Mynd úr safni.

Gunnhildur og Haiden í úrvalsliðinu og Ingi besti þjálfarinn

Laust eftir hádegi í gær voru veitt umferðarverðlaun Domino‘s deildar kvenna fyrir seinni umferð keppnistímabilsins. Valið var úrvalslið seinni umferðarinnar, besti þjálfarinn, dugnaðarforkurinn og bestu dómararnir.

 

Snæfell hlaut þar flestar viðurkenningar, eða þrjár talsins. Gunnhildur Gunnarsdóttir fyrirliði og Haiden Denise Palmer voru báðar valdar í úrvalsliðið. Haiden skoraði að meðaltali 22,6 stig í leik, tók 11,4 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Meðalframlag hennar í leik nam hvorki meira né minna en 25,8 framlagsstigum á síðari hluta tímabilsins.

Gunnhildur skoraði að meðaltali 10,8 stig í leik, tók 11,8 fráköst og gaf 3,5 stoðsendingar. Gerir það framlag upp á 11,6 að meðaltali.

 

Snæfell vann ellefu af tólf leikjum sínum á síðari hluta keppnistímabilsins, en það er sigurhlutfall upp á 92 prósentustig. Þarf því ekki að koma stórlega á óvart að Ingi Þór Steinþórsson var valinn besti þjálfarinn.

Vert er að geta þess að eftir fyrri hluta tímabilsins var Ingi Þór einnig valinn besti þjálfarinn og Haiden var sömuleiðis í úrvalsliði fyrri umferðarinnar, þá ásamt Bryndísi Guðmundsdóttur.

Líkar þetta

Tengdar fréttir

Fleiri fréttir