Bjarni Jónsson ásamt fjölskyldu sinni. F.v. Jón Kolka, Kirstín Kolka, Izati Zahra og Bjarni Jónsson.

Vill fá tilfinningu fyrir því hvernig hjartað slær á hverjum stað

Helgina 23.-25. apríl fór fram forval hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði í Norðvesturkjördæmi. Þar var valið í fimm efstu sæti á framboðslista fyrir alþingiskosningarnar næsta haust. Bjarni Jónsson sigraði í forvalinu og mun því leiða lista VG í Norðvesturkjördæmi. Í öðru sæti hafnaði Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingiskona, og þriðja sætið tók Sigríður Gísladóttir. Bjarni Jónsson hefur verið varaþingmaður þetta kjörtímabil og komið inn fyrir Lilju Rafneyju fjórum sinnum frá árinu 2017. Blaðamaður Skessuhorns sló á þráðinn til Bjarna og fékk að kynnast honum aðeins betur og heyra hver hans helstu baráttumál verða fyrir Norðvesturkjördæmi.

Ólst upp í Bjarnarhöfn

Bjarni er sonur Jóns Bjarnasonar, sem er fæddur í Asparvík í Strandasýslu. „Fjölskyldan fluttist að Bjarnarhöfn þar sem faðir minn ólst upp. Móðir mín Ingibjörg Sólveig Kolka er fædd á Blönduósi þar sem afi hennar Páll Kolka var héraðslæknir,“ segir Bjarni.

„Fyrstu orðin tók ég á fjósloftinu á Hvanneyri þar sem foreldrar mínir bjuggu og faðir minn var í búfræðinámi. Mér hefur reyndar verið sagt að þau orð hafi nú bara verið baul,“ segir Bjarni og hlær. „Leiðin lá þá til Noregs í fjögur ár og síðan settist fjölskyldan að í Bjarnarhöfn þar sem ég ólst upp við búskap og hlunnindanýtingu til sjós og lands og lærði þá líka að virða og nýta náttúruna á skynsaman hátt,“ segir hann. Fjölskyldan fluttist svo að Hólum í Hjaltadal þar sem Jón tók við skólastjórn og Ingibjörg gerðist bókavörður og tók þátt í staðarhaldi. „Á Hólum ólumst við öll sex systkinin upp í glaðværum hópi. Ég hef búið og starfað á Hólum eða frá Hólum meira og minna allt mitt líf,“ segir Bjarni.

Fjölskyldan

Bjarni er giftur Izati Zahra og saman eiga þau Jón Kolka, fjögurra ára, og úr fyrra sambandi á Bjarni Kristínu Kolku sem er fædd árið 1994. Hún útskrifaðist sem lögfræðingur síðasta sumar og vinnur fyrir Uppbyggingarsjóði EFTA í Brussel. „Það er gaman að segja frá því en Kristín tók við þessu starfi síðastliðið haust og hefur verið að vinna í fjarvinnu frá Hólum þar til núna nýlega þegar hún fór út. Það er magnað að sjá hvernig hægt er að sinna vinnu svona í fjarvinnu, jafnvel í öðru landi, talandi um störf án staðsetningar,“ segir Bjarni. Izati, sem er viðskiptamenntuð, kemur frá Indónesíu og starfar í dag á leikskóla á Sauðárkróki.

Menntun og fyrri störf

Jón Kolka með pabba sínum á fundi byggðarráðs Skagafjarðar þegar frí var í leikskólanum.

Bjarni hefur góð tengsl við kjördæmið og á til að mynda ættir að rekja á Strandir og í Húnavatnssýslur. Hann varði mótunarárunum á Snæfellsnesi og frá 15 ára aldri hefur hann búið á Hólum eða Sauðárkróki, að undanskildum fáeinum árum sem hann dvaldi annarsstaðar vegna skólagöngu. Bjarni hóf nám við Grunnskólann í Stykkishólmi, síðan í Varmahlíð og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og fór eftir það í Háskóla Íslands þar sem hann lauk prófi í sagnfræði með viðskiptafræði sem aukagrein. Þá lá leið hans til Bandaríkjanna þar sem hann lauk námi í fiskifræði frá ríkisháskólanum í Oregon auk þess sem hann var um tíma við rannsóknir í Stanford háskóla. Bjarni hefur stundað nám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst samhliða öðrum störfum. Framan af vann Bjarni mest landbúnaðarstörf en fékk eitt árið sumarvinnu hjá Veiðimálastofnun og kviknaði þá enn frekar áhugi á fiskifræði og náttúrufræði. „Ég stýrði norðurlandsdeild Veiðimálastofnunar og rannsóknum á landsvísu í tólf ár og kynntist þessu kjördæmi þá enn betur,“ segir Bjarni og bætir við að hann hafi einnig kennt um tíma við ferðamáladeild og fiskeldisdeild Háskólans á Hólum.

Bjarni hefur setið í sveitarstjórn Skagafjarðar frá árinu 2002, sat átta ár í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og er nú í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann var formaður landshlutasamtaka Norðurlands vestra í fjögur ár og hefur einnig verið virkur í félagsstarfi tengdu íþróttum í gegnum árin. Hann var lengi keppnismaður í spretthlaupum auk þess sem hann hefur haft mikinn áhuga á frjálsum íþróttum. „Ætli hápunktur íþróttaferilsins hafi samt ekki verið þegar ég var formaður landsmótsnefndar UMFÍ árið 2004. Ég fékk ekkert minna út úr því en að vera sjálfur á hlaupabrautinni,“ segir Bjarni. En hann dró sig úr hlaupunum á sínum tíma vegna meiðsla.

Vill tengja byggðarlögin betur

Bjarni á sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins í Strassburg.

Bjarni hefur búið í Norðvesturkjördæmi allt sitt líf að undanteknum námsárum og segist brenna fyrir því að vinna fyrir fólkið á því svæði. „Það er gríðarlega mikilvægt að allir landshlutar eigi sína þingmenn og að á Alþingi sé fólk sem er í nánum tengslum við fólkið í landinu og að allir hafi einhvern til að berjast fyrir sínum hagsmunum,“ segir Bjarni. Spurður hver séu helstu hagsmunamál Norðvesturkjördæmis svarar Bjarni því að þau séu mörg en að nú sé mikilvægt að fara í innviðauppbyggingu. „Það þarf að byggja upp á mörgum sviðum. Við þurfum að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og bæta samgöngur þar sem við tengjum betur saman byggðarlögin,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að tengja byggðir svo fólk geti sótt þjónustu milli byggðarlaga ef svo ber undir. „Ég vil ekki sjá að samgöngumál í þessu kjördæmi séu aðeins hugsuð til þess að komast frá Reykjavík til Akureyrar með auðveldum hætti. Ég vil sjá uppbyggingu milli byggðarlaga og að við tengjum byggðir betur við hringveginn,“ segir hann.

Byggja upp fjölskyldusamfélag

Aðspurður segir Bjarni mikilvægt að tryggja búsetu á landsbyggðinni og að til þess þurfi að byggja upp fjölbreytt atvinnutækifæri. „Þetta er svæði sem byggir mikið á matvælaframleiðslu og að vel sé búið að þeim atvinnugreinum. Við verðum að standa með sjávarbyggðunum, með bændum og fjölbreyttri atvinnusköpun vítt og breytt um kjördæmið, fólki sem er að skapa meira sjálft. Styðja við frumkvöðla.Tækifærin eru sannarlega til staðar. Við þurfum að skapa þeim farveg og rétt umhverfi til að blómstra. Tryggja jöfn tækifæri fólks hvar sem það býr,“ segir Bjarni.

„Fólki þarf að líða vel og vera með öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnutækifærum. Þá skiptir líka máli samvinna sveitarfélaga og ríkisvaldsins til byggja upp fjölskylduvæn samfélög á landsbyggðinni. Lykillinn að því er að hafa góða leik- og grunnskóla og auðvelt aðgengi að framhaldsmenntun. Við eigum þrjá öfluga landsbyggðar háskóla og háskóla- og rannsóknasetur í kjördæminu sem skapa svæðinu mikla sérstöðu og tækifæri sem við þurfum að nýta enn betur,“ segir hann.

Standa vörð um náttúruna

Feðgarnir Jón Kolka og Bjarni.

Vinstri hreyfingin grænt framboð er að sögn Bjarna flokkur sem vill standa vörð um náttúru og auðlindir og tryggja að auðlindir séu nýttar á skynsaman og sjálfbæran hátt „Ég er mikið náttúrubarn og alinn upp við hlunnindanýtingu og er mjög meðvitaður um mikilvægi þess að nýta hlunnindi á skynsaman hátt, en við þurfum að nýta náttúruna og bera virðingu fyrir henni á sama tíma, þar sem náttúran á sinn eigin tilverurétt og til að þróast áfram á eigin forsendum,“ segir Bjarni og bætir við að til þess að svo sé hægt sé mikilvægt að treysta á nærsamfélagið. „Við þurfum að hafa íbúa hvers svæðis með í ákvarðanatökum til að stuðla að náttúruvernd á hverju svæði, ég tel það farsælustu leiðina til árangurs og virðingar. Fólkið þekkir sitt svæði best og hefur sterkustu tilfinningarnar til sinna heimahaga. Ég hef farið út í heim og menntað mig á þessu sviði, verið á kafi í náttúrusiðfræði og alþjóðlegu starfi en að endingu er það alltaf fólkið á svæðinu sem veit best,“ segir Bjarni og bætir við að Snæfellsjökulsþjóðgarður sé gott dæmi um slíkt.

Hvernig hjartað slær á hverjum stað

„Kannski má segja að grunnstefið í minni pólitík sé að tryggja jöfn tækifæri fólks, óháð búsetu. Ég legg áherslu á að við treystum fólkinu í byggðarlögunum. Ég vil vera fulltrúi allra í kjördæminu og ég vil ferðast um svæðið, hlusta á fólkið og fá tilfinningu fyrir því hvernig hjartað slær á hverjum stað. Minn vilji er að tryggja hagsmuni allra og ekki dragast inn í þegar verið er að stilla byggðum upp hver gegn annarri eins og stundum verður, t.d. þegar kemur að samgöngumálum,“ segir Bjarni. „Þetta eru krefjandi og spennandi verkefni framundan sem ég hlakka til að takast á við ef ég fæ tækifæri til. En ég er gríðarlega þakklátur fyrir stuðninginn í prófkjörinu, það er gott veganesti að fá svona afgerandi og breiðan stuðning í sínu samfélagi,“ segir Bjarni Jónsson oddviti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi.