Á tökustað inni í húsinu.

Tóku upp stuttmynd í yfirgefnu húsi

Nokkrir nemendur í kvikmyndatækni í Tækniskólanum í Reykjavík unnu tvo daga í síðustu viku við tökur á stuttmynd sem tekin er upp í yfirgefnu húsi á Akranesi. Húsið umrædda er við Vesturgötu 74, heitir Bjarg en ekki hefur verið búið í húsinu í um 20 ár. Að sögn Þórhildar Kristínar, sem er leikstjóri stuttmyndarinnar og hitti blaðamann á tökustað, hefur fullt af fólki sem átt hefur leið fram hjá húsinu verið að forvitnast hjá þeim hvað væri í gangi. Hún segir að þau séu að taka upp sitt fyrsta verkefni í skólanum og þemað sé hrollvekja. Það sé mjög erfitt „consept“ þar sem það þarf að vera mjög hræðilegt og því erfitt að fanga það. Tóta, eins og hún er kölluð, segir að Baldur, sem er ættaður af Skaganum og einn af samnemendum þeirra, hafi bent þeim á þetta yfirgefna hús og þau fengið leyfi hjá núverandi eiganda þess að nota það í tökur. Í húsinu eins og gefur að skilja er hvorki rafmagn né vatn og því frekar kalt hjá nemendunum í tökunum en allar tökur myndarinnar eru teknar inni í húsinu. Rafmagn fyrir ljós og tæki fengu þau lánað úr tveimur nærliggjandi húsum og eru afar þakklát fyrir það.

Húsið Bjarg við Vesturgötu 74.

Alls eru þau sjö nemendurnir sem taka þátt í stuttmyndinni en um er að ræða leikara, myndatökumenn, ljósamenn og hljóðmann ásamt leikstjóra. Fengu þau að auki einn kennarann sinn til að leika í fyrstu senu myndarinnar. Tveir tökustaðir eru í myndinni en hinn er Kex Hostel í Reykjavík. Tóta segir að myndin verði sýnd í skólanum og segir að í raun sé sagan byggð á því hvernig húsið var útlits. Myndin fjalli í stuttu máli um málarann Úlf sem tekur að sér að mála þetta hús en er varaður við því að taka verkið að sér því tveir menn hafi áður horfið sem ætluðu að mála það. Skuggalegir hlutir gerast í framhaldinu sem óþarfi er að fara nánar út í.

Aðspurð um námið í Tækniskólanum segir Tóta að það sé mjög skemmtilegt og gott nám og hún mæli eindregið með því. Það sé bæði hægt að fara í kvikmyndaskólann og kvikmyndatækni í Tækniskólanum en báðir skólarnir séu góðir á sinn hátt. Hún segir að þau muni ljúka námi í desember á næsta ári með diplóma í kvikmyndatækni og kvikmyndagerð og hlakki mikið til að starfa við kvikmyndaiðnaðinn á næstu árum.