Garðar Borgþórsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Ingimar Ingimarsson.

ÞAU taka Vestfirði komin út á plötu

Síðasta sumar fóru þrír listamenn í tónleikaferðalag um Vestfirði og héldu tónleika á alls 13 stöðum. Þetta voru ÞAU, hljómsveit sem er skipuð söng- og leikkonunni Rakel Björk Björnsdóttur og tónlistarmanninum Garðari Borgþórssyni, ásamt Ingimar Ingimarssyni organista á Reykhólum. Tónleikaröðina kölluðu þau Fáheyrt.

Á vefsíðu Reykhólahrepps er greint frá því að ÞAU fluttu frumsamin lög við ljóð vestfirskra skálda á ferð sinni. Meðal þeirra eru Guðmundur Ingi Kristjánsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Halla skáldkona á Laugabóli, Jakobína Sigurðardóttir, Herdís og Ólína Andrésardætur, Jón úr Vör, Ólína Þorvarðardóttir og Steinn Steinarr.

Lokatónleikarnir voru í Reykhólakirkju 24. júlí í fyrrasumar og voru jafnframt eitt af atriðum á dagskrá Reykhóladaga. Nú er efnið af tónleikunum komið út á plötu, á Spotify og helstu streymisveitum. Ber hún nafnið „ÞAU taka Vestfirði“ og verða útgáfutónleikar í Bæjarbíó í Hafnarfirði 6. apríl.