Sýnum karakter!

Ungmennafélag Íslands gaf nýverið út sinn fyrsta hlaðvarpsþátt, Sýnum karakter. Um er að ræða verkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Fyrsti viðmælandi hlaðvarpsins er Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness, sem talar um þau forréttindi að hafa alist upp í litlu samfélagi þar sem íþróttir voru númer eitt, tvö og þrjú. Sjálf er Hildur Karen fædd og uppalin í Bolungarvík en hún fluttist á Akranes eftir nám sitt í Danmörku og býr þar enn.

Verkefnið Sýnum karakter er átaksverkefni um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda eins og líkamlega færni. Hægt er að hlusta á frásögn Hildar Karenar í fyrsta þætti Sýnum karakter á, www.soundcloud.com/synumkarakter.