Listakonan Hjördís Halla Eyþórsdóttir í Stykkishólmi. Ljósm. sá

Sýnir brot úr stóru verki um líf ungrar konu á landsbyggðinni

Ljósmyndarinn Hjördís Halla Eyþórsdóttir hefur sett upp sýningu í Norska húsinu í Stykkishólmi þar sem hún sýnir hluta af nýju langtímaverki sem ber heitið Silfurbúrið. „Þetta er ekki fullklárað verk en það sýnir part af heildarverkinu sem enn er í vinnslu,“ segir Hjördís en fullklárað verður Silfurbúrið að bókverki. Silfurbúrið er verk sem sýnir frá lífi ungrar konu sem flytur ein út á landsbyggðina. „Ég flutti ein í Stykkishólm árið 2015 og ætli einfaldasta útskýringin á verkinu sé ekki að það sé eins og dagbókarfærslur í formi ljósmynda,“ segir Hjördís. „Það sýnir líf mitt í Hólminum,“ bætir hún við.

Stóð á tímamótum

Eins og fyrr segir flutti Hjördís ein í Stykkishólm fyrir um sex árum. Hún ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og hafði alla tíð búið í höfuðborginni. „Ég hafði ekki einu sinni farið í sveit,“ segir hún og hlær. Aðspurð segir hún það hafa verið skyndiákvörðun að flytja í Stykkishólm en hún stóð á tímamótum í lífinu, var nýlega orðin edrú og var að leita að nýjum stað fyrir nýja byrjun. „Ég vildi geta verið nýja útgáfan af mér og fann stað til þess í Hólminum. Ég ákvað að leita að vinnu þar sem ég gæti fengið að búa frítt og það leiddi mig í Stykkishólm. Svo hef ég bara ekki komist héðan, ég hef oft reynt en það er alltaf eitthvað sem dregur mig hingað aftur. Ætli nornirnar á Snæfellsnesinu segi ekki að það sé jökullinn sem haldi mér hér,“ segir hún kímin.

Frelsið í Hólminum

Hjördís segir það þó ekki endilega vera Stykkishólm sem haldi henni þar heldur frelsið sem fylgir því að búa úti á landi. „Stykkishólmur er fallegur og góður bær en það er samt bara tilfallandi að ég endaði hér. Ég finn fyrir fjárhagslegu frelsi að búa á landsbyggðinni og líka bara miklu frelsi almennt. Stykkishólmur er vel staðsettur bær þar sem stutt er til Reykjavíkur svo ef mig þyrstir í borgina er ekki langt ferðalag að fara. Mér þykir gott að búa í þessu litla samfélagi, ég get mikið verið ein og stjórnað mínum tíma sjálf,“ segir Hjördís og bætir við að það hafi verið í Hólminum sem hún féll fyrir ljósmyndun. „Ég uppgötvaði ljósmyndun því mér leiddist. Hingað var ég komin, borgarbarnið með engin áhugamál og vissi ekkert hvað ég ætti að gera við tímann,“ segir Hjördís og hlær. Hún prófaði ýmis áhugamál en engin þeirra festust, ekki fyrr en hún prófaði ljósmyndun. Hún vissi að hún vildi gera eitthvað skapandi en kunni ekki að mála, teikna, spila tónlist, dansa eða neitt slíkt. Hún greip því í myndavélina og fann sig þar og hefur nú klárað nám í ljósmyndun.

Hótelstjóri í Stykkishólmi

Auk þess að taka myndir er Hjördís í dag hótelstjóri á Hótel Egilsen í Stykkishólmi. „Það kom til eins og allt í mínu lífi, bara alveg óvart. Ég var beðin um að taka við af honum Arnóri en við erum gamlir skólafélagar úr Reykjavík. Þau vantaði einhvern sem átti heima á svæðinu,“ segir Hjördís og bætir við að starfið henti henni afskaplega vel. Spurð hvernig sé að vera hótelstjóri á litlu hóteli úti á landi í miðjum heimsfaraldri segir hún það bæði krefjandi og skemmtilegt. „Ég hef aldrei tekið að mér neitt starf í líkingu við þetta áður. En ég held að það henti sérstaklega vel að vera skapandi í svona starfi á þessum tíma. Maður þarf að geta hugsað út fyrir boxið og kunna að finna lausnir. Hótel Eigilsen hefur þá sérstöðu að byggja á persónulegri þjónustu og hafa karakter sem þú finnur kannski ekki á stærri hótelkeðjum. Ég held að þessir eiginleikar hafi nýst okkur vel. Ég verð líka að segja að þrátt fyrir hversu glatað það er að sjá tekjutapið sem hótelið hefur orðið fyrir í þessum faraldri hefur þetta líka verið skemmtilegt, að finna upp á nýjum hlutum. Það má segja að síðasta árið hafi mitt starf kannski frekar verið krísustjórn en hótelstjórn,“ segir hún og hlær. „Við höfum reynt að gera bara það besta úr hlutunum og það hentar mér líka vel þetta fyrirkomulag að hugsa bara einn dag í einu,“ segir Hjördís.

Sýningin opin fram í júní

Ljósmyndasýningin verður opin í Norska húsinu í Stykkishólmi fram í júní en aðspurð segist Hjördís ekki vita hvenær megi gera ráð fyrir að verkið verði fullklárað og komið í bók. „Ég þarf að sækja um styrki og er bara að leita að sniðugum styrkjum fyrir þetta verkefni. Ég gaf út bók sjálf í fyrra og það var mikil vinna og kostnaður,“ segir Hjördís sem gaf út lokaverkefnið sitt í ljósmyndanáminu, bókina „Put All Our Treasures Together“.