Stuttmyndahátíðin Northern Wave framundan

Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í þrettánda sinn helgina 22.-25. október næstkomandi. Hátíðin verður haldin í Frystiklefanum í Rifi og þar verður boðið upp á fjölbreytt úrval alþjóðlegra stuttmynda og íslenskra tónlistarmyndbanda. Hátíðin er elsta kvikmyndahátíð landsins og hefur staðið af sér ýmsar krísur í gegnum árin. „Við höfum farið í gegnum bankahrun, túristasprengingu og nú heimsfaraldur,“ segir Dögg Mósesdóttir, stofnandi og stjórnandi Northern Wave IFF, í samtali við Skessuhorn. Á hátíðinni verða sýndar 63 myndir og tónlistarmyndbönd, sem er aðeins minna en áður. „Hver mynd fær gott rými í ár. En þetta er samt bíómaraþon alla helgina,“ segir Dögg. Heiðursgestur á hátíðinni að þessu sinni er stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson, sem mun sitja fyrir svörum í sérstöku meistaraspjalli sem Guðrún Elsa Bragadóttir mun stýra. „Við ætlum að rekja úr honum garnirnar og fá að heyra hans reynslusögur úr kvikmyndabransanum. Þetta verður eflaust áhugavert og skemmtilegt spjall,“ segir Dögg.

Stórtónleikar

Á hátíðinni verður boðið upp á norræna vinnustofu á vegum Stelpur skjóta og hátíðarinnar, þar sem ungar kvikmyndagerðakonur frá Norðurlöndunum hittast og fá leiðsögn frá norrænum konum. Markmiðið er að efla tengsl milli ungra kvenna í kvikmyndagerð. Auk stuttmynda og tónlistarmyndbanda verða ýmsir aðrir viðburðir á hátíðinni. Boðið verður upp á bíósund fyrir börnin þar sem sýndar verða alþjóðlegar stuttmyndir í sundlauginni í Ólafsvík. Þá verður boðið upp á stuttmyndanámskeið, super 8 teiknimyndabíó og plakatasmiðju og ættu því allir að finna eitthvað við hæfi.

Tónlist hefur alltaf spilað stóran þátt í hátíðinni og að þessu sinni verður boðið upp á tvöfalda stórtónleika með Vök og Reykjarvíkurdætrum, í samstarfi við Frystiklefann í Rifi. „Við höfum ekki áður haft svona svakalega tónlistarveislu. En báðar þessar hljómsveitir hafa beðið eftir því að spila í Frystiklefanum svo það var upplagt að gera það þessa helgi, þegar allt verður fullt af fólki,“ segir Dögg. Þá hvetur hún áhugasama að vera tímanlega að kaupa miða á bæði hátíðina og tónleikana. „Við erum að taka smá áhættu að vera með tvenna svona stóra tónleika á þessum tíma þar sem er mikil óvissa en við þurfum að ná ákveðinni lágmarkssölu svo hægt sé að halda þessa tónleika. En við vonum að fólk sé bara með okkur í liði og sé tilbúið að byrja aftur að mæta á svona menningarviðburði. Þetta verður skemmtileg hátíð með alþjóðlegum vinkli og allir ættu að finna eitthvað við hæfi. Svo erum við bara eins og ein stór fjölskylda í Frystiklefanum og það myndast alltaf skemmtileg og góð stemning,“ segir Dögg að endingu.

Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á northernwavefestival.com og hægt er að kaupa miða á tónleikana í gegnum heimasíðu Frystiklefans, thefreezerhostel.com