Kirkjan er frábær umgjörð utan um tónleika og studdi vel við allan tilfinningaskalann sem gestir upplifðu.

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem kalla sig Storm Duo, spiluðu þar snilldarlega á harmonikkur. Þær eru að klára tónleikaferðalag um Ísland, sem er hluti af enn stærra ferðalagi, sem hófst í norður Noregi og endar í suðurhluta Noregs nú í vor.

Einhvern veginn dettur manni ekki í hug sígild tónlist, þegar harmonikkan er nefnd, en þær stöllur byrjuðu á norskum brúðarmarsi og svo Edvard Grieg og Johann Sebastian Bach. Smám saman færðu þær sig svo nær hefðbundinni harmonikkutónlist. Samspilið var einstakt, þær horfðust í augu, hlógu og geisluðu og spiluðu á allar tilfinningar gestanna, frá trega til gleði, meira að segja komu hlátri til skila með þessum ótrúlega skemmtilegu hljóðfærum. Kristina sagði meðal annars frá því að aldraður faðir sinn hafi spilað á síldarárunum á Siglufirði fyrir dansi og spilaði af því tilefni vals, sem var næstum of ástríðufullur fyrir kirkju. Að kenna dúettinn við storm er afar vel við hæfi, flæðandi eins og náttúruafl.

Tónleikaröðin er samstarfsverkefni milli Noregs og Íslands og stutt af nokkrum menningarsjóðum í löndunum. Tilgangurinn er að sýna hversu fjölhæft hljóðfæri harmonikkan er, þegar kemur að tónlist og það tókst svo sannarlega, enda ungu konurnar fagmanneskjur fram í fingurgóma. Melkorka Benediktsdóttir afhenti þeim stöllum smá þakklætisvott frá Harmonikkufélaginu Nikkólínu og gestir stigu þakklátir út í haustrigninguna að tónleikum loknum.

-Bjarnheiður Jóhannsdóttir