Lukkulegur hjólreiðahópur í júní 2020 eftir árlega Skarðsheiðarför. Hefð hefur verið að fara fyrsta laugardag í júní ár hvert og hjólað Skarðsheiðina. Stefnt er að því að fara 4. júní næstkomandi og verður það fimmta árið í röð sem það verð. Ljósm. aðsend.

Stofnfundur Hjólreiðafélags Vesturlands verður haldinn í Borgarnesi

Stofnfundur Hjólreiðafélags Vesturlands verður haldinn á Bara Ölstofu Lýðveldisins að Brákarbraut 3 í Borgarnesi þriðjudaginn 22. febrúar næstkomandi eða, 22.02.22 kl. 20:02. Síðastliðið haust var það Helgi Guðmundsson sem plantaði litlu fræi í tvo Facebook hópa, Hjólað í Borgarbyggð og Samhjól Vesturlandi, þar sem hann viðraði þá hugmynd við meðlimi hópanna hvort það væri ekki áhugi fyrir því að stofna hjólreiðafélag. Vel var tekið í hugmyndina og strax hent í fund í kjölfarið. „Það voru fimmtán manns sem mættu á fundinn, sem var svona hálfgerður upplýsingafundur. Aðalmarkmiðið var að athuga hvort það væri áhugi fyrir því að stofna hjólreiðafélag yfir höfuð,“ útskýrir Guðríður Hlíf Sigfúsdóttir sem hefur verið hluti af ákveðnum undirbúningshópi sem settur var á laggirnar í kjölfar upplýsingafundarins. Ásamt henni í undirbúningshópnum eru Helgi Guðmundsson, Anna Halldórsdóttir, Sigurkarl Gústavsson og Haukur Erlingsson. „Við buðum okkur öll fram til að undirbúa stofnfund sem verður núna næstkomandi þriðjudag, 22. febrúar.“

Allir Vestlendingar velkomnir í félagið

Félagið verður kallað Hjólreiðafélag Vesturlands og verður Vestlendingum öllum velkomið að vera með í því. „Við hugsuðum að til þess að þetta yrði stórt og öflugt félag að gefa öllum á Vesturlandi tækifæri á að vera með,“ útskýrir Guðríður. „Pælingin er einnig að þetta á að vera opið fyrir allar tegundir reiðhjólaiðkunar og á öllu getustigi. Það getur verið að það verða einhverjar deildir innan félagsins seinna meir, en við eigum eftir að sjá betur hvernig því verður háttað eftir stofnfundinn,“ bætir hún við.

Helstu markmiðin eru að fá fleiri iðkendur í sportið, auka aðstöðu til hjólreiða bæði innanhúss og utandyra og einnig að auka fræðslu, halda námskeið, bæta við hjólaleiðum og þar fram eftir götum. „Það eru fullt af skemmtilegum leiðum hérna í kring og viljum við gera þær enn betri og bæta við leiðum. Okkur langar líka að kynna svæðið okkar hérna á Vesturlandi og fá fólk til að staldra lengur við heldur en bara í sjoppunum. Til dæmis í Borgarnesi, þá sérðu fullt af fólki með hjól á þakinu keyra hérna í gegnum bæinn, en það er ekkert að koma hingað til að hjóla heldur frekar fer það norður eða eitthvað álíka. En ef upplýsingar um hjólaleiðir yrðu aðgengilegri, þá myndi það kannski stoppa aðeins lengur við í bænum.“

Hefur alltaf hjólað

En hvað hefur þú hjólað lengi? „Ég er frekar ný í þessu sporti,“ svarar Guðríður og hlær. „Ég hef alltaf hjólað og þótt það rosalega gaman. En svo langaði mig að gera eitthvað meira með hjólið. Ég keypti mér nýtt hjól 2019 og kom mér í samband við Dagnýju Pétursdóttur og þau sem voru á kafi í hjólreiðunum hérna í Borgarnesi. Það vildi líka til að á svipuðum tíma og ég fékk nýja hjólið að Dagný hafði skipulagt hjólreiða námskeið í Borgarnesi. Ég skráði mig og kom mér á sama tíma betur inn í þennan heim,“ bætir Guðríður við um hjólaferilinn sinn en hún hjólar mest megnis á fjallahjóli. „Þetta er svo fjölbreytt sport. Ég, Dagný og Helgi erum til dæmis á fjallahjólunum. Hann Sigurkarl er meira í götuhjólum og sumir í bæði eins og hann Haukur, hann á öll hjólin,“ bætir hún við og hlær.

Hjólreiðar sem heilsueflandi og útiveruaukandi

„Ég vil hvetja sem flesta til þess að prufa hjólreiðar. Í dag er um margar mismunandi gerðir að velja og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Má þar nefna götu, malar, fjalla, rafmagns og innanhúss hjólreiðar,“ segir Dagný Pétursdóttir, hjóla og náttúruelskandi eins og hún gjarnan kallar sig. „Að hjóla fer afar vel með skrokkinn og eykur þolið mjög fljótt, hvort sem þú vilt hugsa um þær til heilsueflingar eða eingöngu til afþreyingar með það í huga að njóta í náttúrunni. Einnig er hrikalega gaman að finna aftur gleðina þegar hjólað er og má nefna það að hjólreiðar auka á þessa barnsgleði við hreyfingu, sem við töpum gjarnan þegar við eldumst,“ bætir hún við. „Rafhjólin eru um þessar mundir að koma sterk inn og er það frábært því margir sem hefðu ekki farið á venjuleg hjól finna sig algjörlega á rafmagninu þar sem það hjálpar við ákveðnar aðstæður. Ég hvet ykkur sem flest að mæta og prufa og það má alltaf hafa samband,“ segir Dagný glöð. Hægt er að hafa samband í gegnum Facebook hópinn, Hjólreiðafélag Vesturlands, eða finna Dagnýju á Facebook og spyrja hana út í hjólreiðar.

Allir hvattir til að mæta á stofnfund

Ein af ástæðum þess að stofna til hjólreiðafélags var meðal annars til að auðvelda styrktar umsóknir. „Styrkirnir verða meðal annars nýttir til að búa til brautir í skógræktarlandi, fá þjálfun og líka styrk til að senda fólk á þjálfaranámskeið svo við getum verið með okkar eigin þjálfara í heimabyggð. Við viljum fjárfesta í einhverju sem myndi svo skila sér áfram í samfélagið okkar,“ útskýrir Guðríður bjartsýn að endingu.

Eins og fyrr kemur fram þá verður stofnfundur Hjólreiðafélags Vesturlands haldinn á Bara Ölstofu Lýðveldisins næstkomandi þriðjudag kl. 20:02 og eru allir sem hafa einhvern áhuga á hjólreiðum á öllum getustigum hvattir til að mæta á fundinn.