Skinkuhorn – Valdimar Ingi Brynjarsson

Það er ákveðin taktík að bjóða fólk velkomið

Viðmælandi Skinkuhornsins þessa vikuna er Skagamaðurinn Valdimar Ingi Brynjarsson. Hann er mörgum kunnur en hann hefur síðustu 15 ár verið viðloðinn veitingastaðinn Gamla Kaupfélagið á Akranesi. Þar byrjaði hann 14 ára gamall að baka pizzur en var fljótur að taka að sér önnur verkefni innanhúss þegar þau buðust. Árið 2016 tók hann við rekstri Gamla Kaupfélagsins hvar hann var framkvæmdastjóri og einn eigenda í sex ár, fram til ársloka 2021. Valdimar hefur síðustu ár verið áberandi í bæjarlífinu á Akranesi og hefur lagt sig fram um að glæða bæinn lífi. Eftir því er tekið og þykir hann einkar jákvæður, duglegur og þjónustulundaður. Eftir mörg lærdómsrík og krefjandi ár í eigin rekstri ákvað Valdimar að kúpla sig þar út og prófa aðra hluti og var hann raunar með það markmið fyrir árið 2022 að gera sem flest og hafa gaman af. Hann segir það hafa verið blendnar tilfinningar að segja skilið við staðinn og starfsfólkið en fann þó að þetta var það rétta í stöðunni.

„Það var bara kominn tími á að fara að gera eitthvað annað. Fyrirtækið gekk vel og stóð fínt en ég var orðinn rosalega þreyttur á því að vinna 400 klukkutíma á mánuði og sinna þeim verkefnum sem ég þurfti að sinna. Mér fannst kominn tími á að prófa aðra hluti og auka þekkingu mína, hvort sem það var á þessu sviði eða einhverju öðru og ég þurfti bara aðeins að horfa út fyrir rammann og sjá hvort ég gæti gert eitthvað annað öðruvísi. Ég fann að ég var ekki að fara að sinna þessari vinnu áfram og vera glaður við að gera það. Það var komin smá kvöð í kringum vinnuna og ég var kannski ekkert upp á mitt besta alla daga þannig ég ákvað frekar að kúpla mig út úr fyrirtækinu á þeim tíma og fá mér einhverja aðra vinnu og núlla mig aðeins. Og ef mig langar að fara aftur í eigin rekstur í framtíðinni þá bara geri ég það en ég sé ekki fram á að koma að Gamla Kaupfélaginu aftur,“ segir Valdimar.

Á þessum tímamótum ákvað Valdi að sækja um sumarvinnu á veitingastaðnum Slippnum í Vestmannaeyjum. Úr varð að hann fékk vinnu á nýjum systurstað Slippsins sem ber heitið Næs. Hann dvaldi því sumarlangt í Vestmannaeyjum á síðasta ári, vann sem þjónn á Næs og tók einnig vaktir á Slippnum þegar þær féllu til. Fram að sumri starfaði hann í Kallabakaríi á Akranesi þar sem hann gekk í ýmis störf og tók til að mynda að sér að halda utan um samfélagsmiðla bakarísins. „Þau eru að gera geggjaða hluti þarna í bakaríinu en þar er til dæmis allt bakað frá grunni. Og við fengum rosalega gott feedback á samfélagsmiðlum eftir að við byrjuðum að sína frá vinnslunni þar. Fólki fannst mjög gaman að fylgjast með bakstrinum og sjá að það væri verið hnoða deigið og hvernig ferlið er í kringum allan baksturinn, kleinuhringi, ostaslaufur og fleira en ég fékk líka alveg nokkur skilaboð um að hætta að sýna frá framleiðslunni því fólk gat þá ekki setið á sér með að koma og fá sér bakkelsi,“ segir Valdimar og hlær.

Hvað varðar dvölina í Vestmannaeyjum segir Valdimar að þar hafi hann fengið staðfestingu á því að hann væri góður í sinni vinnu. Næs er huggulegur lítill smáréttastaður og þegar Valdimar hóf þar störf þekkti hann engan í starfsumhverfinu né samfélaginu í Eyjum.

„Koma vel fram, vera duglegur og brosa“

„Ég var með það hugarfar fyrir þetta ár að prufa eitthvað alls konar, kynnast nýju fólki og gera skemmtilega hluti. Vinnan á Næs var kannski ekki ósvipuð þeim vinnum sem ég hef áður sinnt, þ.e. ég var ekki beint að gera neitt nýtt en var á nýjum stað og með nýju fólki,“ segir Valdi og bætir við að fljótlega eftir að hann byrjaði að vinna í Eyjum hafi saga um góðan þjón á Næs í Vestmannaeyjum ratað upp á Akranes. „Þannig að eftir sumarið í Eyjum áttaði ég mig kannski betur á því hvað ég er góður með fólki. Þegar ég er að þjóna þá bara set ég mig í einhvern karakter og grilla í liðinu og ég held ég hafi ekki verið búinn að átta mig eins mikið á því áður en ég fór frá Akranesi að ég væri svona góður og kynni svona vel á fólk. Það er ákveðin taktík að bjóða fólk velkomið og ná að djassa það í sætin sín. Jú fólk er vissulega að koma fyrir sig út að borða en það vill líka fá góða þjónustu og góða upplifun í kringum það,“ segir Valdimar. En hver er lykillinn að farsæld í starfi eins og þessu? „Ég myndi segja að það sé að koma vel fram, vera duglegur og sýnilegur og brosa. Og sýna að þú nennir að gera það sem þú ert að gera og taka vel á móti fólki. Ef þú hefur áhuga á einhverju, sinnir því og gerir það vel og með dugnaði þá er allt hægt sem maður ætlar sér. En ég er til dæmis ekki góður í að tengja rafmagn þannig ég læt einhvern annan um það,“ segir Valdimar í Skinkuhorni vikunnar.

Auk þess að ræða um vinnuna síðustu ár og allt sem henni tengist segir Valdimar til að mynda frá skemmtilegu ferðalagi sem hann fór í til Afríku 2014 og ákvörðun sinni um að koma út úr skápnum, 21 árs. Þátturinn er aðgengilegur í heild sinni hér á vef Skessuhorns, Spotify og Soundcloud.com/skessuhorn.

Góðir félagar sem allir hafa komið að Gamla Kaupfélaginu með einhverjum hætti. Frá vinstri: Ísólfur Haraldsson, Arnar Þór Sigurðsson, Gunnar Hafsteinn Ólafsson, Valdimar Ingi Brynjarsson, Jósef Halldór Þorgeirsson og Birkir Snær Guðlaugsson.