Skinkuhorn – Rúnar Gíslason

Borgnesingurinn Rúnar Gíslason er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsþáttarins Skinkuhorns. Hann starfar sem rannsóknarlögreglumaður í lögregluumdæmi Suðurnesja og fór yfir helstu þætti starfs síns í Skinkuhornsþætti vikunnar. ,,Þetta gerðist svolítið óvart. Þetta átti að vera sumarstarf en mig langaði að sækja um til að víkka sjóndeildarhringinn. Svo bara festist maður í þessu eins og gjarnan vill verða. Ég vann náttúrulega í átta ár á Landnámssetrinu í Borgarnesi. Ég byrjaði þar sem uppvaskari þegar ég var ungur en vann svo í öllu þarna með árunum. Ég flutti svo í bæinn og ætlaði að fara að mennta mig en fattði svo að ég hef engan áhuga á því að mennta mig. Eða ég allavega vissi ekki í hverju ég vildi mennta mig svo ég fer að vinna með börnum í grunnskóla. Kennarar eru svo í fríi á sumrin þannig ég fór að leita mér að sumarvinnu. Þá réði ég mig í lögregluna á Norðurlandi Vestra, sem sagt á Sauðárkróki. Ég endaði á því að vera þar í þrjú ár og líkaði það afar vel. Svo langaði mig að færa mig sunnar á bóginn og prófa meira, þá vann ég á Vesturlandi í eitt sumar með starfsstöðvar í Borgarnesi og á Akranesi,“ segir Rúnar um vegferð sína að lögreglustarfinu.

Vildi fara sem fyrst aftur til Suðurnesja
Rúnar fer svo í lögreglunám við Háskólann á Akureyri og endar í starfsnámi á Suðurnesjum. ,,Ég fer þangað í starfsnám og hugsaði að það vill enginn heilvita maður búa eða starfa á Suðurnesjum. Ég get klárað starfsnámið þar og mun svo sennilega aldrei eiga leið þangað aftur nema þegar ég fer í flug. Svo líkaði mér bara svo rosalega vel þarna og þegar ég kláraði mitt lögreglunám ákvað ég að ég vildi fara sem fyrst þangað aftur og hef verið þar síðan.“

Alvarleg mál eiga sér ekki landamæri
Hvernig mál erum við helst að takast á við hérna á Vesturlandi? ,,Maður sér það í tölfræðinni að umferðarmálin vega þyngst á Vesturlandi, sem betur fer held ég. Því miður höfum við séð það í fréttum að alvarleg mál eiga sér samt hvorki landamæri eða sveitarfélagsmörk. Það gerast öll mál í öllum landshlutum. Ég var ekki að kljást við nein svakaleg mál á Vesturlandi en svona upp til hópa býr hér bara siðgott og þægilegt fólk.“

Getum lent í erfiðleikum í lífi og starfi
Hvernig er að starfa sem lögreglumaður, tekur starfið ekki aðeins á sálina stundum? ,,Ég hef stundum verið spurður að því hvernig er að starfa sem lögreglumaður, einmitt upp á þetta að gera. Vissulega erum við með mjög mikinn snertiflöt á allt það alvarlegasta sem kemur upp á í okkar samfélagi. Ef eitthvað bjátar á hringir fólk í neyðarnúmerið 112 og það er vettvangur sem ég vinn á sem viðbragðsaðili en ég hef reynt að horfa á þetta þannig að ég myndi sennilega reyna að finna mér eitthvað annað til að barma mér yfir ef ég væri að vinna einhvers staðar annars staðar. Þeir hlutir sem við erum að klást við í lögreglunni eru hlutir sem munu hvort eð er gerast, hvort sem ég vinn þar eða ekki. Það skiptir ekki máli hvort ég vinni þarna eða sem blaðamaður á Skessuhorni, ég get lent í erfiðum atvikum og stressandi aðstæðum. Sem dæmi var ég búinn að vinna í lögreglunni í þó nokkurn tíma áður en ég kom að andláti eða endurlífgun en ég þekki fólk sem hefur komið að erfiðum aðstæðum og gert ýmislegt sem það skrifaði ekki upp á að vilja gera. Við lendum í ýmsu, hvort sem maður er heima uppi í sófa eða í vinnunni þannig ég hef reynt að nálgast það þannig.“

Hlusta má á viðtalið við Rúnar í nýjasta hlaðvarpsþætti Skinkuhorns í spilaranum hér að neðan og á Spotify.