Skinkuhorn – Hulda Margrét Brynjarsdóttir

Vildi geta verið meira með börnunum sínum

Hlusta má á þáttinn hér á vefsíðu Skessuhorns, á soundcloud.com/skessuhorn og á Spotify. Einnig getur þú gerst áskrifandi að Skinkuhorninu, gegn vægu gjaldi, með því að fara inn á www.patreon.com/skinkuhorn. Þá getur þú hlustað á þættina í því hlaðvarpsforriti sem þú kýst, með því að notast við RSS kóða sem fæst við skráningu.

Hulda Margrét Brynjarsdóttir á og rekur fyrirtækið Leið að uppeldi þar sem hún kynnir fyrir fólki það sem kallast virðingarríkt uppeldi (e. respectful parenting), bæði með ókeypis fræðslu en einnig er hún með netnámskeið í sölu. Hún segir frá því að í mörg ár hafi hún verið leitandi, ekki kunnað að hlusta á innsæið og vissi ekki alveg hvert sitt hlutverk væri almennt. Hulda Margrét er gestur Skinkuhornsins í þessari viku.

„Þegar eldri dóttir mín fæðist og kemur í hendurnar á mér þá fannst mér ég bara vera komin með tilganginn í fangið. Þannig að ég gat ekki hugsað mér annað en að vera heimavinnandi í einhvern tíma allavega á meðan hún væri lítil. Svo eignumst við annað barn tæpum tveimur árum seinna. Og eins og gefur að skilja þá fylgja því alls konar örðugleikar að vera með tvö börn og þeir smitast oft út í sambandið,“ segir Hulda Margrét en hún vill meina að innsæið hjá konum verði mjög sterkt á meðgöngu og þegar þær eru nýbúnar að eignast börn. Hennar innsæi sagði henni að taka málin í sínar hendur, koma sér frá Íslandi, flytja til útlanda. Hún vissi að Noregur væri barnvænt samfélag og úr varð að þau fjölskyldan fluttu þangað. Hulda gat þá verið heima með dætur sínar að mestu og fékk heimgreiðslur vegna þess. Maðurinn hennar var útivinnandi og áttu þau í engum erfiðleikum með að ná endum saman. Þau minnkuðu neyslu og lifðu á því sem þau áttu. „Það sem ég var að leita eftir úti í Noregi var að geta verið meira með börnunum mínum,“ segir Hulda og bætir því við að það hafi aðallega verið að hennar frumkvæði sem þau fluttu þangað. „Ég sagði eiginlega bara við manninn minn: „Ég ætla að flytja, þú mátt koma með ef þú vilt og ég skal redda okkur íbúð og öllu saman,“ segir Hulda og hlær.

Þau fjölskyldan voru í Noregi í þrjú ár og fluttu aftur heim til Íslands árið 2021. „Okkur gafst þarna nægur tími til þess að innleiða alls konar venjur í okkar fjölskyldulíf. Ef ég nefni dæmi þá er kvöldmatartíminn hjá okkur yfirleitt milli klukkan 17 og 17:30, en hér á Íslandi tíðkast það að hann sé kannski um klukkan 19. En þá eru börnin okkar bara orðin þreytt og farin upp í rúm, þannig að það er mun hægara samfélag t.d. úti í Noregi þótt það sé ekki allt fullkomið þar heldur.“

Það var eldri systir Huldu sem kynnti hana fyrst fyrir áhrifavaldinum Kristínu Mariellu sem heldur úti Instagramreikningum Respectfulmom, en hún talar mikið um virðingarríkt uppeldi á ensku. „Mér fannst það algjör þvæla í fyrstu og fannst bara verið að vefja börnum inn í bómul. Nema svo kynni ég mér þessi fræði aðeins meira og þá snýst þetta rosalega mikið um að styrkja sambönd foreldra og barna og fyrirbyggja alls konar óþarfa áföll í æsku, og líka að vinna í áföllum. Þannig að þetta snýst um virðingarríkt uppeldi en byggir rosalega mikið á því bara að búa til sambönd, almennilegt samband við börnin sín, sig sjálfan og jafn vel maka. Þannig að þetta er í raun meðvitað uppeldi.“

Hulda var svo fljótlega sjálf farin að vinna við að leiðbeina öðrum foreldrum um virðingarríkt uppeldi. „Ég er svona „all in“ týpa og ég las þarna einhverja eina bók og fylgdist í smá tíma með Kristínu Maríellu og þá var ég bara farin að vinna við þetta. Það var ekkert aftur snúið. Ég ver þá þremur árum í að mennta mig á netinu um það hvernig ég á að setja upp mitt eigið fyrirtæki og er um leið að lesa allar bækur sem ég get um virðingarríkt uppeldi, um áfallaúrvinnslu, um foreldrahlutverkið og meðvitund í daglegu lífi og núvitund. Þá verður úr fyrirtækið mitt Leið að uppeldi sem ég byrja reyndar með á ensku sem Path to parenting, því ég var viss um að það nennti enginn að hlusta á mig á íslensku,“ segir Hulda en svo fór hún að fá fyrirspurnir um efni á íslensku því það sé í raun ekki til neitt efni á íslensku um þessa uppeldisstefnu sem nefnist líka RIE (Resources for infant educators). „Þannig að úr verður að ég fer að gera allt á íslensku og úr verður Leið að uppeldi.“

Hulda heldur úti vefsíðunni www.leidaduppeldi.is þar sem hún setur inn alls konar fróðleik um virðingarríkt uppeldi en býður einnig upp á netnámskeiðið Agi til árangurs. Í deiglunni eru tvö ný netnámskeið sem Hulda vonast til þess að komi í sölu á þessu ári en hún er einnig að vinna að barnabókum um virðingarríkt uppeldi sem börn og foreldrar geta lesið saman.

Í Skinkuhorni vikunnar ræðir Gunnlaug við Huldu um fyrirtækið hennar, Leið að uppeldi, virðingarríkt uppeldi, jóga, hennar eigið fjölskyldulíf og margt fleira.